Bollakökur og fleira

Nú í vikunni fór ég ásamt fulltrúum mannauðsdeildar Grundarheimilanna með bollakökur og appelsín og kók í gleri til þeirra starfsmanna sem voru í vinnunni á Grundarheimilunum þremur.  Náðum ekki til alveg allra.  Það var gaman að fá að hitta svona marga starfsmenn, eitthvað sem ég hef forðast að gera undanfarið ár vegna Covid 19.  Þess utan er ég nú ekki týpan í að vísitera einstaka einingar/heimili Grundarheimilanna bara til að spjalla.  Finnst alltaf að ég þurfi að hafa eitthvað erindi, eitthvað að gera.  Ekki alveg eins og móðir mín og fyrrum forstjóri Grundar, sem var og er alveg dásamleg í að rölta um heimilið og spjalla við heimilis- og starfsfólkið með sinni alúð og hlýju.  En svo er það einhvern veginn þannig, að þegar ég er kominn af stað, þá er þetta bara ferlega skemmtilegt.  Og gagnlegt.  Maður kynnist alltaf einhverjum nýjum og fær aðra sýn á hitt og þetta í daglegum rekstri heimilanna.

Hugmyndin að bollakökunum kom frá mannauðsdeildinni og er hugsuð sem smá þakklætisvottur til starfsmanna Grundarheimilanna fyrir erfiðan en árangursríkan vetur.  Mjög flott hugmynd Íris, Dennis og Ingibjörg.  En ekki fleiri orð um veturinn, hann er búinn og sólríkt sumarið framundan.  Ítreka ég enn og aftur þakklæti mitt til allra starfsmanna Grundarheimilanna sem hafa staðið sig eins og hetjur undanfarin misseri.

Heyrði á nokkrum stöðum vangaveltur af hverju heimilisfólkið fengi ekki líka bollakökur.  Skiljanlegt.  En þessi atburður beindist sem sagt eingöngu að starfsfólkinu í þetta skiptið, það koma önnur tækifæri og aðrir viðburðir til að gleðja heimilisfólkið.  Starfsfólkið á þetta svo sannarlega skilið en þar með er ekki sagt að það megi/eigi ekki að gleðja heimilisfólkið, síður en svo.  Við notum önnur tækifæri til þess í sumar.

Sitthvað fleira stendur til að gera fyrir okkar góða starfsfólk í sumar, kemur í ljós hvað það verður.

 

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna