Málþing í gær

Í gær stóðu Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu að málþingi um greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila í tilefni af útkomu svo kallaðrar Gylfaskýrslu. Heilbrigðisráðherra ávarpaði samkomuna, Gylfi Magnússon fór rækilega yfir niðurstöður skýrslunnar, Haraldur Benediktsson varaformaður fjárlaganefndar og Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar voru fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu.  Ingibjörg Hjaltadóttir sérfræðingur í öldrunarhjúkrun kynnti fyrir fundarmönnum heilsufar og neikvæða þróun þess hjá heimilismönnum hjúkrunarheimila og Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga fór yfir málefnið út frá sjónarmiði sveitarfélaganna.

Í máli Gylfa kom meðal annars fram að 87% hjúkrunarheimila landsins voru rekin með halla árið 2019 og hefðu daggjöld þurft að hækka á því ári um 6,3% þannig að þau væru réttu megin við núllið.  Einnig að nær öll heimilin ættu langt í land með að ná lágmarks umönnunarklukkustundum heimilismanna eins og embætti landlæknis skilgreinir það.  Fleira miður gott fylgdi.

Engu að síður kom einnig margt gott fram á málþinginu.  Meðal annars það að á næstunni verður lagt fram á Alþingi fjáraukafrumvarp sem inniheldur vonandi eitthvað sem skiptir aðildarfélög SFV máli.  Fyrir utan vænta hækkun daggjalda vegna styttri vinnutíma vaktavinnufólks, vonast ég til að þess að með þessum auknu tekjum hjúkrunarheimilanna verði fleiri þeirra rekin með afgangi í ár en verið hefur undanfarin misseri.  Þetta er þó sýnd veiði, en ekki gefin.  Áður hefur verið lofað að koma til móts við rekstrarvanda aðildarfélaga SFV, en ekki alltaf staðist, því miður.

Tek undir orð heilbrigðisráðherra á þá leið að það þurfi að skoða möguleika þess að nýta sem best það takmarkaða fjármagn sem er til skiptanna við veitingu öldrunarþjónustu.  Og þar er ráðherrann að vísa til eins manns nefndarinnar sem Halldór Guðmundsson á Akureyri skipar.  Bind miklar vonir við niðurstöðu þeirrar nefndar en það kemur þó ekki til með að bjarga núverandi neyðarástandi hjúkrunarheimilanna.  Til þess þarf að grípa til skjótra ráðstafana.  Góð orð Haraldar Benediktssonar varaformanns fjárlaganefndar á málþinginu í gær gefa væntingar um að stjórnarmeirihlutinn hafi séð ljósið, og ætli að koma hjúkrunarheimilunum til bjargar.  Betra er seint en aldrei.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna og

formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu