Fréttir

Heimilispósturinn - apríl 2023

Söngsveitin 12 hélt tónleika

Laugardaginn 11. mars var Söngsveitin 12 í takt með tónleika í hátíðasal Grundar. Tónleikarnir tókust vel og heimilisfólk söng með af innlifun. Þess má til gamans geta að einn úr sönghópnum, Magnús Halldórsson, er sonur Brandísar Steingrímsdóttur heimiliskonu á Grund.

Enn af snjallsímum

Á fjölmennum stefnumótunarfundi Grundarheimilanna sem haldinn var fyrr í þessum mánuði kom skýrt fram, bæði hjá heimilismönnum, aðstandendum og all mörgum starfsmönnum að snjallsímanotkun starfsmanna á vinnutíma væri of mikil. Alltof mikil á köflum. Og að við yrðum að bregðast við þessu með einhverjum skýrum hætti. Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Margar hugmyndir komu fram. Banna alveg notkun þessara tækja, takmarka notkun þeirra með einhverjum hætti eða reyna að stýra notkun þeirra þannig að vel sé. Allt tiltölulega erfið markmið að mínu mati og eins og er þá sé ég enga hagstæða lausn. Í málum sem þessum er oft gott að leita eftir sjónarmiðum annarra. Hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar og nota það sem gengur vel. Með pistli þessum óska ég eftir hugmyndum frá ykkur hvernig skynsamlegast væri að leysa þessa ofnotkun á snjallsímum í vinnutíma. Veit vel að það er mitt hlutverk og annarra góðra starfsmanna Grundarheimilanna að finna lausnir sem þessar en ég spyr engu að síður. Ef maður spyr ekki, þá fær maður ekki svör og ef til vill leynist góð lausn einhvers úti hjá ykkur. Efast reyndar ekki um það, þetta vandamál er víðast hvar annars staðar. Verstu hugmyndirnar/tillögurnar eru þær sem koma aldrei fram. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Stefnumótunarfundur Grundarheimilanna

Stjórn Grundarheimilanna hefur haldið tvo stefnumótunarfundi á ári, yfirleitt í mars og október. Í síðasta pistli sagði ég ykkur frá undirbúningsfundi með heimilismönnum Grundarheimilanna, aðstandendum þeirra og nokkrum íbúum íbúða 60+ í Mörkinni. Sá fundur var haldinn til að fá fram sjónarmið notenda þjónustunnar, hvað gengur vel, hvað má betur fara og svo framvegis. Með þeim pistli fylgdi einnig slóð á netkönnun til aðstandenda vegna umönnunarþjónustu og annarra þjónustu sem við veitum á Grundarheimilunum þremur. Það er skemmst frá því að segja að við fengum mjög góð svör úr könnuninni ásamt mörgum góðum ábendingum á fundinum. Þessar niðurstöður ásamt efni úr ýmsum áttum var tekið til umfjöllunar á stórum stefnumótunarfundi Grundarheimilanna sem haldinn var í gær. Á fundinn mættu rúmlega 30 manns sem samanstóð af stjórn Grundarheimilanna, nokkrum millistjórnendum og almennum starfsmönnum í umönnun. Undirbúningsvinna vegna fundarins og úrvinnsla hans er í höndum Arnars Pálssonar frá Arcur, en hann hefur verið með okkur í stefnumótunarvinnu í all mörg ár. Snillingur þar á ferð. Fundurinn tókst vel í alla staði og það verður spennandi að sjá endanlegar niðurstöður úr þeim fimm vinnuhópum sem unnu að verkefnum sem Arnar setti okkur fyrir. Þessar niðurstöður og tillögur hópanna fimm verða svo lagðar fyrir stjórn Grundarheimilanna og í framhaldinu framkvæmdastjórn. Þar verða málin rædd, einhverjar beinar tillögur settar í þann farveg sem telst skynsamlegur og aðrar skoðaðar betur. Þakka ég öllum kærlega fyrir þeirra aðkomu að þessari mikilvægu vinnu, með fundarsetu, svörum á könnun og með hvaða öðrum hætti. Ykkar framlag er mikils virði. Það er hverju fyrirtæki bráðnauðsynlegt að horfa til framtíðar, skoða hvað má gera betur, hvað hefur gengið vel og gera áætlanir til framtíðar varðandi rekstur og þjónustu. Það höfum við á Grundarheimilunum gert um árabil og verður svo áfram. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Jóga fyrir íbúa 60+

Það var róleg og notaleg jóga stund í Kaffi Mörk í morgun. Jóga kennarinn Shinde kemur alla föstudaga kl.10 og býður íbúum íbúða 60+ upp á jóga. Í tímunum eru teygjuæfingar sem bæta líkamsgetu og auka vöðvastyrk. Einnig eru öndunaræfingar og æfingar fyrir andlegan styrk. Tímarnir henta fólki á öllum aldri og á öllum getustigum.

Sól í sinni og vorið kemur

Þó það sé kalt úti þessa dagana þá er sól í sinni hjá okkur, verið að undirbúa páskana og guli liturinn allsráðandi. Hann minnir á vorið og sólina.

Bingó í Ásbyrgi

Bingó. Flestir hafa gaman af því að spila bingó og það er engin undantekning þegar heimilisfólkið í Ási er annrsvegar. Fyrir skömmu var bingó í Ásbyrgi og bæði börn og fullorðnir sem höfðu gaman af.

Dömukaffi á Grund

Mjög margar konur hafa verið í "saumaklúbbum" og stundum hafa hannyrðir verið uppi á borðum en oft líka talað um saumaklúbba án þess að nokkuð sé gert með höndum annað en lyfta bolla og öðrum veitingum að munni. Það er hinsvegar mikið skrafað um allt milli himins og jarðar. Og það er líka gert þegar boðið er í dömukaffi á Grund. Þá er spjallað og notið.

Taktu auka skrefið

Sigfríður Birna Sigmarsdóttir er starfsmaður okkar hér í Mörk. Hún ætlar að hjóla Jakobsveginn og safna í leiðinni fyrir heimilið Glaumbæ í Mörk. Sjá hér að neðan frekari upplýsingar frá henni um tilhögun ferðarinnar og söfnunina.