Fréttir

Örvunarskammtur af bóluefni

Í næstu viku stendur til að gefa heimilismönnum í Mörk svokallaðan örvunarskammt af bóluefni Pfizer eða bólusetningu nr. 3. Við höfum ekki fengið að vita nákvæma dagsetningu en það skýrist síðar í vikunni. Ef einhver heimilismaður vill EKKI bólusetningu, og aðstandendur þekkja best sitt fólk, þá endilega að láta mig vita. Annars munu okkar læknar fara yfir það hjá hverjum og einum. Sigríður Sigurðardóttir hjúkrunarstjóri.

Flutti Völuspá fyrir heimilisfólk

Við í Ási fengum Jón Gnarr til okkar um daginn og hann flutti fyrir okkur Völuspá. Fólkið okkar varð alveg heillað og margir lyngdu aftur augunum og við sáum varir bærast og það var eins og folk kynni þetta og væri að fara með Völuspána með honum. Það skapaðist mikil umræða um þetta dagana á eftir "Völuspá hefur alltaf verið mér hugleikin frá því að ég var barn" sagði Jón Grann. "Ég hef undanfarið lagt stund á MFA nám í sviðslistafræðum við Listaháskóla íslands og ákvað að gera flutning á völuspá að lokaverkefni. Ég sem lagið sjálfur en hef notið leiðsagnar Hilmars Arnar Agnarssonar organista og stórmúsíkants. Auk hans koma að verkinu Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði og Páll á Húsafelli. Ég vel konungsbókarútgáfu Völuspár og hef notið leiðsagnar Gísla Sigurðssonar prófessors hjá Árnastofnun í meðferð og túlkun textans. Boðskapur völuspár er kyngimagnaður og á jafn vel við í dag og þegar hún var samin. " Verkið verður formlega flutt í Þjóðminjasafni Íslands 26 ágúst og þá bætast söngkonur og lúðrablásarar í hópinn.

Gleðidagur í Ási

Komið þið sæl. Það ríkir gleði hjá okkur í Ási í dag því allar niðurstöður sýna voru neikvæðar sem þýðir að enginn heimilismaður reyndist smitaður af Covid 19. Heimsóknir eru leyfðar en minnum á að það komi mest tveir í heimsókn til heimilismanns í einu, farið sé beint inn á herbergi og ekki stoppað í sameiginlegum rýmum. Allir gestir þurfa að vera með maska og spritta sig þegar þeir koma í hús. Enn er ekki leyfilegt að koma með börn og ungt fólk í heimsókn.

Sonur minn er enginn hommi

hann er fullkominn eins og ég, söng Bubbi Morthens fyrir nokkrum áratugum. Ferlega flottur texti hjá þessum frábæra tónlistarmanni. Hárbeitt ádeila um fordóma margra á þeim tíma í garð samkynhneigðra. Fordóma sem því miður fyrirfinnast enn þann dag í dag, en í talsvert minna mæli en áður. Eitt af því sem hefur slegið á þessa fordóma er þrotlaust starf Samtakanna 78 og svo eru það Hinsegin dagarnir sem hafa verið haldnir frá því um aldamótin. Held að Gleðigangan hafi verið upphafið, eða öfugt, skiptir ekki máli. Við búum í fjölbreyttu samfélagi. Kynhneigð og menning er margskonar. Við erum eins og við erum, tilvitnun í annan frábæran tónlistarmann, Pál Óskar. Sem by the way, ætlar að dvelja á Glitter Grund í ellinni, það tilkynnti hann á tónleikum sínum sem ég sótti með Öldu fyrir nokkrum árum. Þrátt fyrir viðsjárverða tíma þessi misserin þá höldum við á Grundarheimilunum Hinsegin dagana hátíðlega í dag þó við njótum ekki heimsókna á Grund og heimsóknartakmarkana á hinum heimilunum. Við flöggum Regnbogafánanum víða og kokkarnir okkar bjóða upp á litríkt bakkelsi í anda Hinsegin daganna. Þá verður sýnd heimildarmyndin Fjaðrafok sem fjallar um þróun og þroska Gleðigöngunnar. Njótum litríks samfélags saman 😊 Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Kæru aðstandendur

Við viljum skerpa hérna á nokkrum atriðum vegna smita í samfélaginu. Hjúkrunarheimilið er áfram opið en við hvetjum ykkur til að gæta ítrustu árvekni og hafa sóttvarnaráðstafanir í heiðri. Ekki er ráðlegt að börn og ungmenni komi í heimsókn á þessum tímapunkti. Undanþágur má gera ef barn/ungmenni er nánasti aðstandandi. Að öllu jöfnu mæti aðeins tveir gestir í heimsókn til íbúa á hverjum tíma nema að höfðu samráði við starfsfólk deildar. Gestir fara rakleiðis að herbergi íbúa og aftur að útidyrum að heimsókn lokinni. Gestir mega ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilis. Gestir þvo hendur með sápu og spritta áður en gengið er inn á heimili og einnig við brottför. Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir: a. Eru í sóttkví. b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku). c. Hafa dvalið erlendis undanfarna daga. d. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. e. Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang).

Bingó í nýja matsalnum

Það var húsfyllir í nýja matsalnum í Ási fyrir skömmu þegar heimilisfólkið kom þar saman og spilaði bingó.

Sumarhátíð í Ási

Nýlega var haldin sumarhátíð í Ási. Frábær dagur þar sem heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk fögnuðu saman sumri og sól… Hjónin Unnur Birna Björnsdóttir og Sigurgeir Skafti Flosason glöddu viðstadda með frábærum tónlistarflutningi og söng. Hoppukastali,ís frá Kjörís, sápukúlur, krikket og kubbur glöddu unga sem aldna.

Kettlingar i heimsókn

Heimilisfólkið á 2. hæð í Mörk fékk aldeilis skemmtilega heimsókn í vikunni þegar aðstandandi kíkti við með kettlinga, sem vöktu að sjálfsögðu mikla gleði.

Sumarhátíð Markar

Það ríkti kátína í Mörk í síðustu viku þegar haldin var sumarhátíð í garðinum.Heimilisfólk og aðstandendur gerðu sér glaðan dag með ýmsum hætti. Barnabörnin og barnabarnabörnin skemmtu sér í hoppukastala, boðið var upp á andlitsmálningu, sumir púttuðu og svo bauð heimilisfólkið upp á ís í tilefni dagsins.

Það er komið sumar

Það er ljóst að sumarið er komið í Ási og hvert sem litið er gefur á að líta falleg sumarblóm sem heimilis- og starfsmenn hafa hjálpast að við að gróðursetja….