Grindavík

Það hafa auðvitað ekki farið framhjá neinum hremmingarnar sem að dunið hafa á Grindvíkingum síðustu vikuna. Í jafn umfangsmikilli starfsemi og við störfum í eru tengsl til Grindavíkur úr ólíkum áttum. Ég sendi öllu samstarfsfólki, heimilisfólki og aðstandendum, með teningar til Grindavíkur mína bestu strauma.

Einnig vil ég upplýsa að eins og komið hefur fram var leitað til okkar á Grundarheimilunum með að taka á móti hluta hópsins sem að þurfti að rýma hjúkrunarheimilið í Grindavík, Víðihlíð. síðastliðinn föstudag. Okkur var ljúft og skylt að bregðast við og útbúin var lítil hjúkrunardeild þar sem að okkar nýju íbúar dvelja nú í góðu yfirlæti.

Auðvitað eru aðstæður þannig að ekki er mikið prívat rými þar sem að allir gista saman í einum sal en flestir bera sig samt vel miðað við aðstæður. Það var gott að taka á móti hópnum og vita af þeim öruggum hjá okkur þar til önnur og betri aðstaða býðst þeim.

Ég þakka sérstaklega öllum þeim starfsmönnum sem að hafa komið að því að setja upp slíka deild sem og að manna hana, en við höfum fengið aðstoð nokkurra starfsmanna úr Mörk við verkefnið. Við erum tilbúin í Hveragerði að skoða hvort að við gætum komið af stað svipuðu fyrirkomulagi til styttri tíma ef á þarf að halda síðar og yfirvöld eru upplýst um þann möguleika.
Við hjálpumst öll að sem samfélag við þetta allt saman, það er ljóst af viðbrögðum úr öllu samfélaginu.

Kveðja og góða helgi,
Karl Óttar Einarsson
Forstjóri Grundarheimilanna