14.05.2021
Gylfaskýrslan er komin út. Þar kemur margt fróðlegt fram. Meðal annars að til þess að rekstur hjúkrunarheimila árið 2019 hefði verið í jafnvægi hefðu daggjöldin þurft að vera 6,3% hærri en þau voru. Og þá er reyndar búið að taka frá framlag sveitarfélaga til þeirra heimila sem þau reka. Með framlögunum hefði hækkunin ekki þurft að vera svo mikil. En þess ber að geta að sveitarfélögum landsins ber engin skylda til að greiða með rekstri hjúkrunarheimila.
Margir hafa brugðist við niðurstöðum skýrslunnar. Þar á meðal heilbrigðisráðherra. Á síðasta ári þegar vinna við gerð skýrslunnar var í fullum gangi sagði sami ráðherra, og reyndar nær allir þeir stjórnmála- og embættismenn sem tjáðu sig á annað borð, að það væri mjög mikilvægt að fá niðurstöður hennar til að átta sig á því hversu mikið fjármagn vantaði inn í rekstur hjúkrunarheimilanna. Sami ráðherra segir nú, þegar fyrir liggur að það vantar talsvert fjármagn inn í reksturinn að ríkisvaldið (ráðherrann) sé bundið af fjárlögum og það sé ekki hægt að bæta við fjármagni inn í vanfjármagnaðan rekstur hjúkrunarheimilanna. Sérstakt. Einnig bendir ráðherran á nauðsyn þess að huga að skipulagi öldrunarþjónustunnar, bæta í og auka við heimahjúkrun og eyða minni fjármunum í rekstur hjúkrunarheimila. Hárrétt. Þetta eru reyndar gamlar lummur sem ég hef heyrt oft áður á þeim rúmu 30 árum sem ég hef starfað í öldrunarþjónustunni. Og hingað til hefur því miður oftar en ekki lítið orðið um efndir. En ég tek engu að síður undir þessi orð ráðherra og það er mjög mikilvægt að öllum þeim fjármunum sem varið er til umönnunar aldraðra sé sem best varið, fyrir alla aðila. En breyting á framtíðarfyrirkomulagi öldrunarþjónustu hjálpar ekki hjúkrunarheimilum landsins í núverandi rekstrarvanda.
Tel afar brýnt að sá vandi verður leystur með viðundandi hætti. Samtal milli aðila væri gott fyrsta skref. Búið er að skilgreina hver vandinn er, það kemur fram í skýrslunni góðu. Nú vantar bara góðan vilja ráðamanna landsins til að leysa hann. Hef fulla trú á því að það takist. Fjárlögum ríkisins hefur áður verið breytt af minna tilefni en því að halda rekstri hjúkrunarheimila hér á landi gangandi.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
11.05.2021
Viðtal við hann Jón okkar Ólaf ❤ sem allir á Grund þekkja
11.05.2021
Viðtal við hann Jón okkar Ólaf ❤ sem allir á Grund þekkja
30.04.2021
Lengsti og erfiðasti vetur á minni starfsævi er lokið. Vetur kvíða, vetur álags, vetur áhyggna, vetur andvöku en einnig vetur sigurs. Sigurs öldrunarþjónustunnar yfir Covid 19 veirunni. Allt það frábæra starfsfólk öldrunarþjónustu landsins, Grundarheimilanna þar á meðal, lagði á sig feikn mikið og fórnaði sínu hversdagslega lífi til að geta sinnt þeim sem hjá okkur búa. Voru meira og minna í sjálfskipaðri sóttkví síðastliðið ár. Og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Einnig er ég þakklátur því mikla æðruleysi sem heimilisfólkið sýndi í vetur. Auðvitað áttu margir þeirra erfitt og ekki síður aðstandendur þeirra. En með þrautseigju, góðu skipulagi og öllu þessu frábæra starfsfólki tókst okkur að komast í gegnum þessar hörmungar og getum borið höfuðið hátt. Þá sýndu aðstandendur þessum erfiðu aðstæðum skilning og nú er gaman að sjá hversu margir heimsækja sína nánustu. Takmarkanir á heimsóknum á Grundarheimilin eru í lágmarki og hverfa alveg á næstunni.
Framundan er sumar og sól. Hlýja, notalegheit, heimsóknir, lífsgleði, ferðir út í bæ, ferðir á kaffihús, sólbekkjaseta í görðunum okkar og svo mætti lengi telja. Ekki förum við til útlanda á næstunni, í það minnsta ekki fyrri part sumars. Njótum íslenska sumarsins saman og gerum eitthvað skemmtilegt. Bæði í vinnunni og í sumarfríinu langþráða. Að vakna snemma á morgnana, eins og í morgun, og sjá daginn verða til, fuglana vakna og vita og hlakka til þess að þessi dagur verði fallegur og góður. Þvílík tilfinning.
Njótum lífsins saman í sumar
Kveðja og gleðilegt sumar,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna
27.04.2021
Stundum mætir Húni í vinnuna með Barböru Ösp Ómarsdóttur og þá er nú hátíð í bæ. Heimilisfólkið elskar Húna og það er svosem gagnkvæmt, hann kann sannarlega að meta athyglina sem hann fær frá heimilisfólki og sýnir sínar bestu hliðar.
27.04.2021
Hiti á hendur og axlir og frábær félagsskapur. Það er ekki amalegt að byrja daginn svona. Hér eru stöllurnar Emelía, Aðalbjörg, Ingibjörg, Sólbjörg og Villa María að njóta.
22.04.2021
Heimilisfólkið í Mörk hefur unnið hörðum höndum að þessu fallega sumartré í vinnustofu iðjuþjálfunar. Við þökkum kærlega fyrir veturinn og förum brosandi inn í sumarið.
13.04.2021
Konur hittast og spjalla, deila sögum og ræða um daginn og veginn. Fátt skemmtilegra og oft köllum við þessa kvennafundi, saumaklúbba. Nýlega var efnt til saumaklúbbsstundar á V-2 og V-3 og það var svo sannarlega mikið skrafað og hlegið. Sérrí og makkarónur með kaffinu. Hversu dásamlegt.
09.04.2021
Á meðan Covid fárið stóð sem hæst og smitvarnirnar voru í algleymingi sátu þær á spjalli yfir góðum kaffibolla, Hulda Bergrós ritari og heimiliskonurnar Rúrí og Ragna. Talið barst að þessum skrítnu tímum sem við lifum á og hvað það væri mikil synd að eiga öll þessu fínu föt hangandi inn í fataskáp og geta ekki notað þau
Hulda Bergrós kom með þá tillögu að þær myndu gera sér dagamun á föstudögum klæða sig upp í kjóla og jafnvel skreyta sig með perlufestum.
Þetta gerðu þær stöllur alla föstudaga. Gleðin smitaði út frá sér og t.d. hefur iðjuþjálfunin tekið upp á því að mæta í kjólum á föstudögum.
09.04.2021
Stólaleikfimin nýtur vinsælda á Grund og hér eru það heimilismenn á Vegamótum sem kasta blöðru á milli sín og njóta augnabliksins. Við mætum helginni með bros á vör