Jól í skugga veiru

Annað árið í röð höldum við jólin hátíðleg í skugga andstyggilegrar veiru.  Í fyrra var þetta eitthvað sem við vissum ekki hvernig ætti að tækla, en í ár erum við reynslunni ríkari.  Reyndar eru líklega langflestir ef ekki allir orðnir hundleiðir á þessum endalausu boðum og bönnum sem koma með reglulegu millibili frá æðstu stjórnendum og ábyrgðarmönnum heilbrigðiskerfisins.  Þeim til vorkunnar eru þau öll sömul  að eiga við veiru sem virðist breyta sér eftir því sem tíminn líður og enginn veit í raun hvaða afleiðingar hvert afbrigði hennar hefur á heilsufar og líðan þeirra sem smitast.

Hef trú á doktor Kára Stefánssyni, sem sagði þegar nýjasta afbrigðið kom fram, að líklega yrði það afbrigði meira smitandi en hefði í för með sér vægar einkenni veikinda.  Til þess að veira haldi áfram að lifa má hún ekki drepa þá sem hún smitar, veiran virðist „vita þetta“ og þess vegna er þróunin sem Kári lýsir líkleg, í það minnsta að mínu mati.  Og er það vel.  Ef hans spár ganga eftir verður það versta í það minnsta yfirstaðið þegar kemur að jólunum að ári.

En við skulum nú engu að síður reyna að njóta jólanna saman.  Því miður hafa komið upp nokkur smit á Grundarheimilunum undanfarið og hefur það í för með sér viðeigandi ráðstafanir, einangrun eininga og deilda og annað það sem slík smit hafa í för með sér.  Eins grábölvað og það er nú, þá erum við með þessu að taka meiri hagsmuni fram yfir minni.  Líf og heilsa heimilismanna er í okkar huga, sem stjórnum Grundarheimilunum, mikilvægari og dýrmætari en heimsóknir, þó að þær sé vissulega einnig mjög mikilvægar, ekki síst á jólunum.  Frumniðurstöður hagfræðilegrar rannsóknar um hagkvæmni heimsóknarbannsins sem var sett á í mars á síðasta ári í rúma þrjá mánuði, benda eindregið til þess að sú ákvörðun hafi verið mjög svo fjárhagslega hagstæð.  Nánar um það síðar.

En svona er lífið.  Sífelldar áskoranir sem við þurfum að takast á við og tækla.  Við skulum sameinast um að leysa þau verkefni sem okkur eru falin, góð og slæm.  Jafnvel þó það þýði öðruvísi og ekki eins skemmtileg jól og við myndum óska okkur.

 

Kveðja og gleðileg jól og farsælt komandi ár,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna