Fréttir

Á annað þúsund rjómapönnukökur

Það hefur skapast sú hefð á Grundarheimilunum að bjóða upp á hangikjöt með tilheyrandi meðlæti þann 1. desember og bjóða upp á rjómapönnukökur í eftirmat. Og þá er ekkert annað að gera en að bretta upp ermar eins og þær Rakel og Chutima gerðu og baka á sjö pönnum á annað þúsund pönnukökur. Geri aðrir betur.

Jólaglögg fyrir íbúa 60+

Vöfflukaffi íbúa 60+ var með öðrum hætti síðasta mánudag. Vöfflurnar fengu smá pásu en í staðinn var boðið upp á jólaglögg, smákökur og konfekt. Við áttum góða samverustund, horfðum og hlustuðum á Jólagesti Björgvins á tjaldinu og komum okkur í jólagírinn.

Kynslóðir mætast við undirbúning jólanna

Jólasöngvar, sögur, hlátur, gleði og föndur. Þannig var andrúmsloftið á Litlu Grund þegar börn úr 5. bekk í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi komu í heimsókn í morgun.

Rauður dagur í Mörk 60+

Hér í Mörk var tekið fagnandi á móti desember. Föstudaginn 1. desember voru allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu og í hádeginu var boðið upp á hangikjöt og meðlæti og í eftirrétt voru pönnukökur með rjóma. Vertu velkominn desember.

Karlakór Hveragerðisbæjar í heimsókn

Karlakór Hveragerðisbæjar gladdi okkur með frábærum tónleikum. Ekki amalegt að fá svona heimsókn. Þakka ykkur innilega fyrir komuna og frábæran söng. Guðrún Kristjánsdóttir heimilskona í Bæjarási var afskaplega stolt af syni sínum honum Höskuldi sem syngur með kórnum.

Aðventan undirbúin

Fyrsti sunnudagur í aðventu er í dag en heimilisfólk og starfsfólk í Ási hefur verið önnum kafið við að útbúa aðventukransa og aðventudagatöl undanfarna daga. Það eru ljúfar stundir framundan hjá okkur á aðventunni.

Heimilispósturinn - desember 2023

Seríur og kransar komnir upp

Í nóvember byrjuðum við í Mörk að undirbúa jólin. Húsvörðurinn setti upp seríu á tréð við húsið í bílastæðaportinu og ræstingin hengdi upp jólakransa með seríum á göngum. Það þarf ekki mikið til að fá hlýleika og birtu þegar dimmt er úti. Nú er desember að ganga í garð og þá munu jólatré vera sett upp og meira jólaskraut.

Vátryggingaútboð Grundarheimilanna 2024-2026

Grundarheimilin og tengdir aðilar óska eftir tilboðum í vátryggingar fyrir tímabilið 2024-2026 Um er að ræða lög- og samningsbundnar tryggingar auk annarra trygginga (EES útboð nr. 2023-185419.) Útboðsgögn er hægt að fá með því að senda tölvupóst á gudmundurm@consello.is frá og með 24.11..2023 kl 10:00. Tilboðum skal skila á skrifstofu Grundar, Hringbraut 50, 101 Reykjavík fyrir kl. 13:30, 21.12.2023 og verða þau opnuð þar í viðurvist þeirra bjóðenda sem þar mæta.

Grindavík

Það hafa auðvitað ekki farið framhjá neinum hremmingarnar sem að dunið hafa á Grindvíkingum síðustu vikuna. Í jafn umfangsmikilli starfsemi og við störfum í eru tengsl til Grindavíkur úr ólíkum áttum. Ég sendi öllu samstarfsfólki, heimilisfólki og aðstandendum, með teningar til Grindavíkur mína bestu strauma. Einnig vil ég upplýsa að eins og komið hefur fram var leitað til okkar á Grundarheimilunum með að taka á móti hluta hópsins sem að þurfti að rýma hjúkrunarheimilið í Grindavík, Víðihlíð. síðastliðinn föstudag. Okkur var ljúft og skylt að bregðast við og útbúin var lítil hjúkrunardeild þar sem að okkar nýju íbúar dvelja nú í góðu yfirlæti. Auðvitað eru aðstæður þannig að ekki er mikið prívat rými þar sem að allir gista saman í einum sal en flestir bera sig samt vel miðað við aðstæður. Það var gott að taka á móti hópnum og vita af þeim öruggum hjá okkur þar til önnur og betri aðstaða býðst þeim. Ég þakka sérstaklega öllum þeim starfsmönnum sem að hafa komið að því að setja upp slíka deild sem og að manna hana, en við höfum fengið aðstoð nokkurra starfsmanna úr Mörk við verkefnið. Við erum tilbúin í Hveragerði að skoða hvort að við gætum komið af stað svipuðu fyrirkomulagi til styttri tíma ef á þarf að halda síðar og yfirvöld eru upplýst um þann möguleika. Við hjálpumst öll að sem samfélag við þetta allt saman, það er ljóst af viðbrögðum úr öllu samfélaginu. Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna