Fréttir

Þjóðsögur í morgunstund

Alla miðvikudagsmorgna er boðið upp á samverustund í hátíðasal Grundar. Þá er boðið upp á jóga, slökun, upplestur og söng og alltaf kemur einhver gestur og fræðir eða skemmtir heimilisfólki. Gestur dagsins í dag var Björk Bjarnadóttir þjóðháttafræðingur sem bauð upp á sagnastund þar sem efnið voru þjóðsögur. Takk Björk fyrir að gefa þér tíma til að koma og fræða heimilisfólk.

Hauststarf Markarkórsins hafið

Fyrir rúmum 3 árum var stofnaður kór í Mörk sem fékk nafnið Markarkórinn. Félagar í kórnum eru heimilisfólk og starfsfólk Markar og íbúar sem búa í Íbúðum 60+ í Mörkinni, auk þess sem aðstandendum heimilisfólks er velkomið að taka virkan þátt. Það er engin krafa gerð um söngreynslu eða tónlistarþekkingu, það er allra mikilvægast að hafa ánægju af því að syngja

Að vera í sambandi

Það skiptir máli að vera í góðu sambandi og við höfum heyrt að aðstandendur almennt kalla eftir upplýsingagjöf um viðburði og annað sem í boði er fyrir heimilisfólk. Við viljum endilega hvetja aðstandendur til að taka þátt í viðburðum stórum og smáum, það er velkomið að líta við í opin hús í iðjuþjálfun með sínu fólki, stólaleikfimi eða hvað sem er, það er bara skemmtilegt að taka þátt í formlegum og óformlegum viðburðum, samveran gefur alltaf mikið. Til þess að við getum miðlað þessum upplýsingum þurfum við að vera með upplýsingar um aðstandendur og upplýsingarnar þurfa að vera réttar. Við hvetjum alla aðstandendur til þess að skrá inn upplýsingar um sig á hlekknum hér fyrir neðan. Við hvetjum líka þá sem að eru núna skráðir til þess að fylla út upplýsingar um sig, og mögulega þannig uppfæra gamlar upplýsingar. Vinsamlegast deilið þessum hlekk innan fjölskyldu þannig að fleiri geti skráð sig. Þeir sem að eru skráðir með þessum hætti fá þó ekki sjálfkrafa upplýsingar um heilsufar og viðkvæmar upplýsingar. Slíkt er alltaf metið í hverju tilfelli fyrir sig. Að hafa þessar upplýsingar skráðar hjálpar okkur líka að þekkja betur þá einstaklinga sem að við erum að aðstoða. Við viljum halda góðu sambandi og hvetjum aðstandendur til að hafa samband ef að eitthvað er, stórt eða smátt. Skráning upplýsinga hér: https://forms.office.com/e/Jjgc7VQk8b Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna

Hauststarf Grundarkórsins hafið

Grundarkórinn hóf nýlega sitt þrettánda starfsár. Kórinn er nokkuð sérstakur því í kórnum sameinast heimilisfólk og starfsfólk Grundar, auk þess sem aðstandendum heimilisfólks er velkomið að taka þátt. Svo hafa alltaf nokkrir einstaklingar utan úr bæ tekið þátt í starfinu, velunnarar kórsins.

Bingó í Ásbyrgi

Það var boðið upp á bingó í Ásbyrgi nú í byrjun viku. Það hefði mátt heyra saumnál detta svo mikil var einbeitingin og þögnin þegar tölurnar voru lesnar upp. Flestir létu sér nægja tvö spjöld en þeir áhugasömustu fóru létt með þrjú spjöld.

Samskipti

Í flóknu umhverfi reynir oft á samskiptin og samskiptahæfnina. Það eru allskonar tilfinningar í spilinu þegar að kemur að umönnun ástvina okkar og ljóst að við getum ýmist verið sátt eða ósátt með margt sem að þar fer fram. Eitt er alveg ljóst að lang flestir þeirra sem að vinna þessi störf, gera það eftir sinni allra bestu getu og leggja sig margir fram um að gera þetta eins og þeir sjálfir myndu kjósa. Mikið heyri ég af samverustundum og uppbroti sem að einstaka starfsmenn eða hópur starfsmanna tekur sig saman um að gera og engar starfslýsingar komast yfir að lýsa. Ég verð alltaf ákaflega stoltur af samstarfsfólki mínu þegar að ég heyri slíkar sögur. Tökum okkur saman og verum dugleg að hrósa og þakka fyrir dagleg störf þessa frábæra fólks sem að starfar of oft í vanþakklátum störfum. Þegar að hlutirnir eru hins vegar, að okkar mati, ekki eins og þeir eiga að vera er rétt að beina þeim ábendingum til stjórnenda því að okkar er ábyrgðin. Eru upplýsingar nógu aðgengilegar? Eru þær nógu skýrar? Vita starfsmenn hvers er ætlast? Er skipulagið að virka? Þegar að eitthvað af þessu er að klikka þá þarf að skoða þessa hluti og það er í höndum okkar stjórnenda. Því miður gerist það stundum að við fáum fregnir af því að almennir starfsmenn fái yfir sig skammir og öskur að þeirra mati og það er ekki undir neinum kringumstæðum ásættanlegt. Við sýnum því fullan skilning að þetta er allt saman mjög flókið og allskonar tilfinningar í spilinu. Upplifun er líka ólík milli aðila og getur verið að sá sem að er talinn vera að öskra á einhvern upplifi það ekki þannig. Ég vil því endilega hvetja alla sem að hafa einhverjar umkvartanir að koma með þær endilega til deildarstjóra, hjúkrunarframkvæmdastjóra eða forstjóra, eftir atvikum. Ég er tilbúinn í spjall hvenær sem er. Einnig bendi ég á að á heimasíðu heimilanna (www.grundarheimilin.is) er að finna ábendingarhnapp sem að má gjarnan nota til að koma ábendingum til okkar. Sem sagt, vöndum samskiptin, hrósum þegar að við sjáum tilefni til við hvern sem er, ábendingar, ósætti og kvartanir skulu berast þeim sem að hafa ábyrgð og völd til að bregðast við þeim. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna

Munu annast sálgæslu í Mörk

Mörk hjúkrunarheimili og Fossvogsprestakall (áður Grensás og Bústaðasókn) hafa gert með sér samning til að tryggja sálgæslu við heimilisfólk, starfsfólk og aðstandendur á Mörk hjúkrunarheimili

Heimilispósturinn - september 2023

Fiskidagurinn litli 2023 - Íbúar 60+

Fiskidagurinn litli var haldinn hátíðlegur í gær hér í Mörk. Er þetta í sjötta sinn sem hátíðin fer fram og þökkum við forsvarsfólki Fiskidagsins mikla á Dalvík fyrir stuðninginn og áhugann. Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, setti hátíðina. Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík flutti vináttukveðju, Friðrik fimmti yfirkokkur matseðils Fiskidagsins mikla á Dalvík fór yfir matseðilinn og tónlistarmaðurinn KK söng nokkur vel valin lög. Dalvíkingar, nærsveitungar og velunnarar bjúggu til vináttubönd til að dreifa á hátíðinni í ár. Júlíus kom með slík armbönd og dreifði til íbúa til að undirstrika vináttuna við Mörkina. Viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna. Hlökkum til Fiskidagsins litla á næsta ári.

Mikilvæg störf

Eitt af því sem er jákvætt í vinnustaðamenningu Grundarheimilanna er að við virðum störf hvors annars og áttum okkur á að vinnan okkar er mikilvæg og við hjálpumst að þegar á þarf að halda. Auðvitað kemur fyrir að einhver gleymir sér og finnst sitt starf mikilvægara en annarra en það er mikilvægt að hafa í huga að við finnum fyrir því öll þegar vantar einhverja hlekki í keðjuna. Við höfum okkar styrkleika og veljumst til starfa sem henta okkar styrkleikum. Í svona umfangsmikilli starfsemi er fjöldinn allur af fjölbreyttum störfum, alveg eins og á öllum heimilum. Það er eldhús, það er þvottahús, það þarf að þrífa, það þarf að skipta um perur, það þarf að sinna heilsurækt og heilsueflingu, hafa eitthvað fyrir stafni, það þarf að sinna fjölbreyttum líkamlegum þörfum og svo framvegis. Við erum góð í því sem að við gerum og ekkert gengi upp ef það væri ekki farið út með ruslið eða skipt um ljósaperur. Hvert verkefni hjá okkur getur, ef því er ekki sinnt, komið í veg fyrir að við hin getum sinnt okkar hlutverkum. Við reynum líka að horfa út fyrir hlutverk okkar og aðstoðum samstarfsfólkið í öðrum verkefnum ef á þarf að halda. Það er mikilvægt að við höldum í þennan góða anda, berum virðingu hvert fyrir öðru og störfum hvers annars og léttum undir með vinnufélögunum þegar þarf þannig að allir hlutir gangi sem best. Þannig búum við til jákvætt starfsumhverfi og getum hlakkað til að mæta í vinnuna á hverjum degi. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna