Fréttir

Uppskeran góð á Grund

Í nokkur ár hafa heimilismenn á Litlu og Minni Grund ræktað jarðarber. Í ár er metuppskera í matjurtakassanum sem hýsir jarðarberjaplönturnar. Í gærmorgun var tínt í skál til að bjóða með morgunkaffinu en slíkt er ekkert einsdæmi og hefur verið hægt að gera af og til í sumar. Berin eru ótrúlega sæt og góð í ár og mikil sæla með þessa flottu uppskeru.

Sumarhátíð í Ási

Fögnum sól og sumri í Ási

Kvenfélagið í Hveragerði kom færandi hendi

Kvenfélagið hér í Hveragerði kom færandi hendi í Ás í vikunni þegar það kom með rafknúinn sturtustól með fylgihlutum og færði heimilinu að gjjöf. Sturtustóllinn á svo sannarlega eftir að koma sér vel. Við þökkum kvenfélaginu af alhug fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Á myndinni eru frá vinstri Rúna Einarsdóttir fyrir hönd Áss og fyrir hönd kvenfálagsins þær Ásta Gunnlausdóttir, Hólmfríður Skaftadóttir og Elín María Kjartansdóttir. Enn og aftur, bestu þakkir kvenfélagskonur

Skemmtileg heimsókn í Mörk

Stundum fáum við einstaklega skemmtilega gesti í heimsókn og þannig var það þegar Fífill litli gæsastrákur kom í heimsókn á 2. hæð Markar fyrir nokkru. Hann hlaut hlýjar móttökur og komst svo á dásamlegt heimili á Mýrunum en ekki fyrr en eftir að hafa heilsað upp á heimilismenn og þegið strokur og góðan viðurgjörning.

High Tea veisla

Á mánudögum hefur verið boðið upp á vöfflukaffi í kaffihúsinu okkar fyrir íbúana. Nú er það komið í sumarfrí og var ákveðið að hafa síðasta vöfflukaffið með öðru sniði. Við slógum upp eðal "high tea" veislu með dásamlegum veitingum. Það var góð stemning og vel mætt í þennan síðasta hitting fyrir sumarfrí en vöfflukaffið mun fara aftur af stað í lok ágúst.

Jóhanna Ásdís frá Namibíu

Jóhanna Ásdís Þorvaldsdóttir kom í heimsókn til okkar og sagði frá 7 ára búsetu sinni í Namibíu. Hún sýndi ýmsa muni frá dvöl sinni sem var einstaklega fróðlegt og skemmtilegt að sjá. Takk fyrir að koma til okkar Jóhanna Ásdís og deila reynslu þinni.

Guðrún Gísladóttir í heimsókn

Guðrún Gísladóttir fyrrum forstjóri Grundar kom í heimsókn til okkar í Mörkina. Íbúar hittust í samkomusalnum okkar Mýrinni og tóku á móti Guðrúnu. Hún sagði frá sögu Grundar en á þessu ári fagnar Grund 100 ára afmæli. Við viljum þakka Guðrúnu kærlega fyrir komuna.

Hendi þeir sem henda vilja...

Þarsíðasti föstudagspistill minn fjallaði langt í frá um málefni Grundarheimilanna heldur úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Hveragerði. Sem auðvitað er hápólitískt mál í orðsins fyllstu merkingu. Efnið fór greinilega fyrir brjóstið á einhverjum viðtakandanum og sá hinn sami hafði sambandið við Fréttablaðið, kvartaði þar yfir að pistlarnir mínir væru stundum einhverjum viðtakenda þungbær lesning og úr varð talsverð frétt sem auðvitað hefur vakið athygli í nærsamfélagi mínu. Ég hef í gegnum þessa 360 pistla sem ég hef samið og sent vikulega síðustu níu árin, fengið ýmiskonar viðbrögð. Oftast ánægjuleg, sem er gott, eða a.m.k. skoðanaskipti sem mér finnst oft jafnvel enn betra. Einstaka kvartanir um efnistök hafa einnig borist mér í gegnum tíðina og auðvitað þykir mér það miður. Ég hef svarað slíkum athugasemdum eftir bestu getu en stundum hef ég í kjölfarið tekið viðkomandi af viðtakendalistanum svo honum berist ekki fleiri póstar sem mögulega valda óþægindum. Sjálfur fæ ég í innhólfið mitt á hverjum degi allskonar tölvupósta. Misáhugaverða. Þegar ég sé að efnið á ekki erindi til mín ýti ég á delete takkann og pósturinn fer beina leið í ruslið. Ég les aldrei pósta sem ég hef ekki áhuga á og ennþá síður ef efni þeirra veldur mér ónotum. Fékk símtal frá góðum vini mínum og guðsmanni um daginn, í framhaldi af umfjöllun Fréttablaðsins, og hann sagðist nú bara slökkva til dæmis á sjónvarpinu ef það væri eitthvað í því sem honum líkaði ekki. Eða skipti bara um stöð - sem sagt ekki flókið í hans huga. Mér sýndist ég geta lesið úr fréttinni að sumir íbúar Grundarheimilanna eða aðstandendur þeirra vildu gjarnan lesa og fylgjast með pistlum sem tengjast rekstri Grundarheimilanna en helst ekki neitt annað, til dæmis ekkert persónulegt frá mér. Sem ég virði. Þess vegna mun ég héðan í frá tilgreina efni póstanna í „subject“ línu þeirra þannig að vel sjáist hvort þeir fjalla um „innanhússmál“ eða eitthvað allt annað. Þannig geta þeir sem það vilja forðast að kíkja á innihaldið, þ.e. pistilinn sjálfan, ef hann snýst um óskyld mál. Þeim hinum sömu er þannig auðveldað að henda ritsmíðinni óskoðaðri beint út í hafsauga. Líka er sjálfsagt, og raunar bara vel þegið, ef fólk vill senda mér beiðni um að taka sig af póstlista pistlanna. Sjálfur mun ég hins vegar halda mínu striki með áframhaldandi skrif, bæði um málefni Grundarheimilanna og einnig á persónulegum nótum ef andinn blæs mér þeim í brjóst, enda eru pistlarnir fyrir löngu orðnir stór partur af minni rútínu. Ég mun hins vegar reyna að halda mig á mottunni og ganga hægt og varlega um þessar gleðinnar dyr. Svo lengi lærir sem lifir 😊 Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Uppskeruhátíð hjá kórum Grundarheimilanna

Nýverið var sannkölluð uppskeruhátíð hjá kórunum í Mörk og á Grund en kórarnir sameinuðust og héldu í vorferð. Ferðinni var heitið í Ás í Hveragerði þar sem sungið var fyrir heimilismenn og lífsins notið í sól og blíðu. Frábær ferð þar sem tónleikagestir nutu sem og kórarnir.

Grill og gaman

Einn góðviðrisdaginn fyrir skömmu var blásið til grillveislu á þriðju hæðinni í Mörk. Andrúmsloftið dásamlegt og allir lögðust á eitt með að hafa daginn litríkan og skemmtilegan.