Hendi þeir sem henda vilja...

Þarsíðasti föstudagspistill minn fjallaði langt í frá um málefni Grundarheimilanna heldur úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Hveragerði. Sem auðvitað er hápólitískt mál í orðsins fyllstu merkingu. Efnið fór greinilega fyrir brjóstið á einhverjum viðtakandanum og sá hinn sami hafði sambandið við Fréttablaðið, kvartaði þar yfir að pistlarnir mínir væru stundum einhverjum viðtakenda þungbær lesning og úr varð talsverð frétt sem auðvitað hefur vakið athygli í nærsamfélagi mínu. 

Ég hef í gegnum þessa 360 pistla sem ég hef samið og sent vikulega síðustu níu árin, fengið ýmiskonar viðbrögð. Oftast ánægjuleg, sem er gott, eða a.m.k. skoðanaskipti sem mér finnst oft jafnvel enn betra. Einstaka kvartanir um efnistök hafa einnig borist mér í gegnum tíðina og auðvitað þykir mér það miður. Ég hef svarað slíkum athugasemdum eftir bestu getu en stundum hef ég í kjölfarið tekið viðkomandi af viðtakendalistanum svo honum berist ekki fleiri póstar sem mögulega valda óþægindum. 

Sjálfur fæ ég í innhólfið mitt á hverjum degi allskonar tölvupósta. Misáhugaverða. Þegar ég sé að efnið á ekki erindi til mín ýti ég á delete takkann og pósturinn fer beina leið í ruslið. Ég les aldrei pósta sem ég hef ekki áhuga á og ennþá síður ef efni þeirra veldur mér ónotum. Fékk símtal frá góðum vini mínum og guðsmanni um daginn, í framhaldi af umfjöllun Fréttablaðsins, og hann sagðist nú bara slökkva til dæmis á sjónvarpinu ef það væri eitthvað í því sem honum líkaði ekki. Eða skipti bara um stöð - sem sagt ekki flókið í hans huga.

Mér sýndist ég geta lesið úr fréttinni að sumir íbúar Grundarheimilanna eða aðstandendur þeirra vildu gjarnan lesa og fylgjast með pistlum sem tengjast rekstri Grundarheimilanna en helst ekki neitt annað, til dæmis ekkert persónulegt frá mér. Sem ég virði. Þess vegna mun ég héðan í frá tilgreina efni póstanna í „subject“ línu þeirra þannig að vel sjáist hvort þeir fjalla um „innanhússmál“ eða eitthvað allt annað. Þannig geta þeir sem það vilja forðast að kíkja á innihaldið, þ.e. pistilinn sjálfan, ef hann snýst um óskyld mál. Þeim hinum sömu er þannig auðveldað að henda ritsmíðinni óskoðaðri beint út í hafsauga. Líka er sjálfsagt, og raunar bara vel þegið, ef fólk vill senda mér beiðni um að taka sig af póstlista pistlanna. Sjálfur mun ég hins vegar halda mínu striki með áframhaldandi skrif, bæði um málefni Grundarheimilanna og einnig á persónulegum nótum ef andinn blæs mér þeim í brjóst, enda eru pistlarnir fyrir löngu orðnir stór partur af minni rútínu. Ég mun hins vegar reyna að halda mig á mottunni og ganga hægt og varlega um þessar gleðinnar dyr.

Svo lengi lærir sem lifir 😊

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna