Framkvæmdir Grundarheimilanna 2022

Í ár sækja Grundarheimilin í Framkvæmdasjóð aldraðra um framlag upp á 152 milljónir vegna framkvæmda upp á 380 milljónir. Sjóðurinn styrkir framkvæmdir sem bæta aðstöðu heimilismanna á hjúkrunarheimilum um 40%.  Stærsta einstaka framkvæmdin er suðurgarður Grundar.  Þar er fyrirhugað að opna leið úr núverandi starfsmannaborðstofu á jarðhæð út í garðinn og reisa þar rúmlega 100 fermetra veitingaskála.  Þar verður hægt að kaupa veitingar og njóta skálans og garðsins sem verður útbúinn fallegum bekkjum, leiktækjum og gróðri.  Einnig verður rýmið þannig úr garði gert að það verður „mannhelt“ þeim sem eru með minnisglöp og eru ekki alveg með á nótunum.  Áætlaður kostnaður við breytingarnar á garðinum er um það bil 150 milljónir.

Næst stærsta framkvæmdin er breyting á svokölluðum stubbi frá þeim breytingum sem síðast voru í gangi frá A2 til vesturs að borðstofunni á annarri hæð.  Þar að auki verður norðurhluta borðstofunnar breytt í tvö einsmanns herbergi, hvort með sínu baðherbergi.   Þetta kostar 106 milljónir.  Með þessu bætist enn í eins manns herbergin á Grund með sér baðherbergi.  Þriðja í röðinni er endurnýjun á lyftu á Minni Grund sem er kominn til ára sinna.  33 millur þar.  Árlega er síðan skipt um nokkra tugi glugga á Hringbraut 50 og í ár er gert ráð fyrir 27 milljónum í þá framkvæmd.  Níu aðrar framkvæmdir eru ráðgerðar á Grund, Mörk og Ási.

Framkvæmdir sem þessar eru allar til þess fallnar að bæta aðstöðu heimilismanna Grundarheimilanna.  Í gegnum árin hafa þessar framkvæmdir numið mörg hundruð milljónum króna og hverri krónu er vel varið.  Með þessu erum við reyndar að fækka rýmum á Grund þar sem hvert herbergi fær sér baðherbergi, og slíkt kostar pláss.

Vonandi sér stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra þessi mál í sama ljósi og stjórn Grundar og veitir öllum þessum brýnu framkvæmdum styrk og þar með brautargengi.  Við þurfum svo sannarlega á því að halda.

 

Kveðja og góða helgi,

                                                                                                                                                                          Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna