Frétta-, alnets- og samfélagsmiðlabindindi

Síðastliðinn laugardag tapaði D-listinn í Hveragerði helmingi bæjarfulltrúa sinna í bæjarstjórn Hveragerðis og þar með þeim hreina meirihluta sem hann hefur haft undanfarin 16 ár.  Fengum tvo af sjö.  Eins og síðastliðnar fimm kosningabaráttur, frá árinu 2002, var ég kosningastjóri þessa flotta fólks nú í vor sem bauð fram krafta sína til að stýra bænum.  Á sunnudeginum var ég aðeins beygður, fannst ég ekki hafa staðið mig og langaði einhvern veginn ekki að fylgjast með fjöl- og samfélagsmiðlum (sem séra Pétur vinur minn kallar reyndar sundurfélagsmiðla, nokkuð til í því) þann daginn.  Og líðanin varð smám saman betri.  

Eftir því sem fleiri dagar liðu í þessu bindindi hefur mér áskotnast talsvert meiri tími til allskonar.  Maður gerir sér ekki grein fyrir því hversu ávanabindandi öll þessi netnotkun er, fylgjast með á facebook, mbl.is, visir.is og hvað þeir heita nú allir þessir netmiðlar.  Áhugi á eða áhyggjur af því hvort Dagur, Einar eða Hildur (í stafrófsröð til að gæta fyllsta hlutleysis) verði borgarstjóri í Reykjavík eða hver verður ráðinn bæjarstjóri í Árborg.  Kannski verður nafni minn þar áfram.

Veit vel að bindindi sem þetta mun ekki halda hjá mér um ókomna tíð, en ég hefði ekki trúað því hversu góð tilfinningin er og ég mun eflaust fara í samskonar „afvötnun“ einhvern tíma seinna á lífsleiðinni.  Vinnu minnar vegna þykir mér líklegt að ég neyðist til að kíkja eitthvað á fréttir í næstu viku, kannski ekki fyrr en í þar næstu.  Tel líklegt að það muni einhver segja mér, jafnvel aðeins gegn vilja mínum, hver verði næsti borgarstjóri þegar það liggur fyrir.  Kemur í ljós.

D-listinn kemur ekki að stjórn bæjarins næstu fjögur árin og Alda, eiginkona mín sem er í öðru sæti listans og í minnihluta, kemur þar með til með að hafa meiri tíma fyrir okkur hjónin, meira golf, meiri frítíma, meiri samveru og miklu betra líf.  Það er nefnilega þannig að það geta falist sigrar í ósigrum.  Og þannig lít ég á úrslitin um síðastliðna helgi.  Ég græði persónulega heilmikið á því að við í D-listanum töpuðum meirihlutanum.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna