Stefnumótunarfundur Grundarheimilanna

Stjórn Grundarheimilanna hefur haldið tvo stefnumótunarfundi á ári, yfirleitt í mars og október.  Í síðasta pistli sagði ég ykkur frá undirbúningsfundi með heimilismönnum Grundarheimilanna, aðstandendum þeirra og nokkrum íbúum íbúða 60+ í Mörkinni.  Sá fundur var haldinn til að fá fram sjónarmið notenda þjónustunnar, hvað gengur vel, hvað má betur fara og svo framvegis.  Með þeim pistli fylgdi einnig slóð á netkönnun til aðstandenda vegna umönnunarþjónustu og annarra þjónustu sem við veitum á Grundarheimilunum þremur.  Það er skemmst frá því að segja að við fengum mjög góð svör úr könnuninni ásamt mörgum góðum ábendingum á fundinum.

Þessar niðurstöður ásamt efni úr ýmsum áttum var tekið til umfjöllunar á stórum stefnumótunarfundi Grundarheimilanna sem haldinn var í gær.  Á fundinn mættu rúmlega 30 manns sem samanstóð af stjórn Grundarheimilanna, nokkrum millistjórnendum og almennum starfsmönnum í umönnun.  Undirbúningsvinna vegna fundarins og úrvinnsla hans er í höndum Arnars Pálssonar frá Arcur, en hann hefur verið með okkur í stefnumótunarvinnu í all mörg ár.  Snillingur þar á ferð.  Fundurinn tókst vel í alla staði og það verður spennandi að sjá endanlegar niðurstöður úr þeim fimm vinnuhópum sem unnu að verkefnum sem Arnar setti okkur fyrir.

Þessar niðurstöður og tillögur hópanna fimm verða svo lagðar fyrir stjórn Grundarheimilanna og í framhaldinu framkvæmdastjórn.  Þar verða málin rædd, einhverjar beinar tillögur settar í þann farveg sem telst skynsamlegur og aðrar skoðaðar betur.

Þakka ég öllum kærlega fyrir þeirra aðkomu að þessari mikilvægu vinnu, með fundarsetu, svörum á könnun og með hvaða öðrum hætti.  Ykkar framlag er mikils virði.

Það er hverju fyrirtæki bráðnauðsynlegt að horfa til framtíðar, skoða hvað má gera betur, hvað hefur gengið vel og gera áætlanir til framtíðar varðandi rekstur og þjónustu.  Það höfum við á Grundarheimilunum gert um árabil og verður svo áfram.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna