Fréttir

Fiskidagurinn litli 2022

Fiskidagurinn Litli var haldinn í Mörk í síðustu viku við góðar undirtektir. Fjölmargir íbúar lögðu leið sína í veisluhöldin. Boðið var upp á matarmikla fiskisúpu og ofnbakaðan fisk ásamt ís í eftirrétt. Fiskurinn var eins og alltaf í boði Samherja. Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins Mikla á Dalvík ásamt Friðriki V komu í heimsókn og tóku þátt í deginum með okkur. Við fengum flotta tónlistarmenn til að flytja ljúfa tóna fyrir okkur en það voru þeir Eyjólfur Kristjánsson og Friðrik Ómar. Viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna. Hlökkum til Fiskidagsins Litla á næsta ári.

Hinsegin dögum fagnað á Grundarheimilunum

Það var mikið um dýrðir á öllum heimilumum þremur þegar fjölbreytileikanum var fagnað. Fræðsla og fjör og svo var skreytt, fánar dregnir að húni og meira að segja kökurnar litskrúðugar.

Söngurinn ómar

Það er svo skrítið en þegar við syngjum saman þá verður allt svo miklu betra en ella. Söngstundirnar okkar eru alltaf vinsælar þar sem Jón Ólafur spilar á harmonikku öll þessi gömlu góðu og söngurinn ómar um húsið.

Þúsund hamborgarar steiktir í Ási

Það var hamborgaraveisla á Grundarheimilunum í lok síðustu viku og þá þurfti starfsfólkið í Ási að láta hendur standa framúr ermum. Eyjólfur Kristinn Kolbeins fékk í lið með sér barnabarnið sitt Viktor Másson og þeir græjuðu þetta með stæl, steiktu um eitt þúsund hamborgara. Heimilisfólkið kunni vel að meta hamborgara og franskar og gæddi sér svo á ís eftir herlegheitin.

Fjölbreytileikanum fagnað í Ási

Gleði gleði gleði er það sem fyrst kemur í hugann þegar þessar myndir eru skoðaðar sem teknar voru í Ási í dag. Þar var fjölbreytileikanum fagnað með litríkum degi, fræðsla um hinsegin daga og gleðin við völd.