Fréttir

Þorrahlaðborð og lopapeysur

Bóndadegi var fagnað í Ási. Sönghópurinn Tjaldur kom og tók þorralög fyrir heimilisfólkið í hádeginu. Sönghópurinn gæddi sér síðan af þorrahlaðborðinu í boði hússins og að lokum tóku þau þorralögin fyrir starfsfólkið við góðar undirtektir. Það var gaman að sjá hvað fallega var skreytt á heimilunum og kórfélagar í fallegum lopapeysum.

Tónlist og heilabilun

Það er dásamlegt að upplifa hvað tónlist gerir mikið fyrir þá sem eru komnir með heilabilunarsjúkdóma sagði starfsmaður á Grund sem var að vitna í átta vikna námskeið sem er nýhafið á heimilinu undir yfirskriftinni Tónlist og heilabilun. Það er Magnea Tómasdóttir sópransöngkona og tónlistarkennari sem heldur utanum um námskeiðið en hún hefur lengi tengt tónlist og fólk með heilabilunarsjúkdóma. Grund hlaut styrk frá Oddfellowsystrum í Rbst. Nr.1 Bergþóru til að bjóða upp á námskeiðið og erum við hér á Grund þeim innilega þakklát í stúkunni fyrir að hugsa með þessum hlýhug til heimilisfólksins okkar sem komið er með heilabilunarsjúkdóma.

Eden námskeiðið vel sótt

Það var áhugasamur og flottur hópur frá Grundarheimilunum sem mætti á Eden námskeið Eden Alternative samtakanna nú í ársbyrjun. Margir voru að mæta á þriggja daga námskeið í fyrsta sinn á meðan einhverjir koma til að rifja upp. Grund vinnur þessa mánuðina að því að innleiða Eden hugmyndafræðina og með hækkandi sól verða öll Grundarheimilin þrjú, Grund, Ás og Mörk komin með vottun samtakanna sem Eden heimili. Ás og Mörk hafa um árabil verið vottuð Eden heimili.