Fréttir

Allt að gerast í suðurgarði Grundar

Nágrannar okkar í vesturbænum taka eftir því að það er mikið um að vera í miðjum suðurgarði Grundar. Heimilismenn og aðstandendur hafa heldur ekki komist hjá því að sjá og heyra í framkvæmdunum sem nú eiga sér þar stað. Í garðinum á nú að rísa 100 fermetra kaffihús með skemmtilegu útisvæði, leiktækjum, göngustígum og fallegum gróðri. Hlynur Rúnarsson sviðsstjóri fasteigna Grundarheimilanna segir að uppgreftri sé nú að verða lokið og verið að klára lagnaskurð fyrir þær lagnir sem koma til og frá húsinu. Næst á að slá upp sökklum fyrir stoðveggi í kringum svæðið sem skilur að leiksvæði, rampa og gangstétt. Í næstu viku er áformað að moka ofan í sökklana og vinna í grunnlögnum. Kjartan Örn Júlíusson og Sigurlaug Bragadóttir hafa verið með myndavél á lofti í vinnunni og myndað framkvæmdirnar.

Sumarblómin sett niður

það er hefð fyrir því í Ási að heimilisfólkið sæki sér sumarblóm og setji í ker eða potta nú eða við dyrnar hjá sér. Það er stemning sem fylgir gróðursetningunni, mold í stórum körum og hægt að velja úr allskonar sumarblómum sem eru ræktuð í gróðurhúsum Grundarheimilanna.

Út í sólina

egar það kemur loksins sól og blíða þá grípum við tækifærið í Ási og færum okkur út í góða veðrið. Starfsfólk iðjuþjálfunar lumar á ýmsu til að fást við utandyra en svo er líka bara skemmtilegt að setjast niður í sól og spjalla um lífið og tilveruna.

Kjarasamningar og sautjándi júní

Nýlega var lokið við að ganga frá kjarasamningum allra starfsmanna Grundarheimilanna en Grundarheimilin eru aðilar að SFV (Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu) sem sér um að semja fyrir okkar hönd. Samningarnir eru í einhverjum tilfellum komnir til framkvæmda en aðrir eru í atkvæðagreiðslu og verði þeir samþykkir verður greitt eftir þeim næstu mánaðarmót, afturvirkt frá 1. apríl. Það er ákaflega ánægjulegt að þetta sé klárt og gott að þessari óvissu sé eytt og mikilvægum kjarabótum komið til minna samstarfsmanna. Samningarnir eru stuttir og því stutt í að taka þurfi upp þráðinn og semja að nýju. Eitt af þvi sem við fáum mestar ábendingar um í starfsánægjukönnunum sem að við framkvæmum með reglulegu millibili er að laun séu of lág miðað við verkefni og ábyrgð. Í mörgum tilfellum er hægt að taka undir það að laun þyrftu að vera hærri til að standast samanburð við önnur störf í þjóðfélaginu og umönnunarstörf hafa lengi verið vanmetin. Á vettvangi stjórnvalda og heildarsamtaka launþega er verkefni sem að snýr að jöfnun launa milli markaða, einmitt með það í huga að lyfta launum í umönnunarstörfum (heilbrigðisþjónusta og kennsla). Vona ég að hjúkrunarheimilin verði höfð í huga í þeirri vinnu og allar okkar stéttir. Sautjándi júní er um helgina og óska ég öllum heimilismönnum, starfsmönnum og aðstandendum (heimilis- og starfsmanna) til hamingju með daginn. Á Grundarheimilunum reynum við að gera deginum hátt undir höfði með tilbreytingu í mat og dúkuðum borðum. Við berum virðingu fyrir því að sú kynslóð sem við erum að þjónusta núna stendur nær tímamótunum árið 1944 en við sem störfum á heimilunum. Þessi dagur skiptir heimilisfólk enn meira máli en mörg okkar sem hér störfum. Við megum ekki gleyma því hvaðan við komum og berum virðingu fyrir hefðunum og höldum daginn hátíðlegan. Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna p.s. hef fengið einhverjar ábendingar um að póstarnir séu of langir, hef því einn stuttan í dag og mun reyna að stytta þá sem að á eftir koma. Þó að ég lofi ekki að þeir verði eins stuttir og þessi. 😊

Vortónleikar Grundar og Markar kóranna

Kórar Grundar og Markar komu saman og héldu vortónleika í hátíðasal Grundar nýverið. Það er frábært að sjá hvað heimilisfólkið nýtur þess að syngja saman í kór og lagavalið endurspeglaði sumarið sem framundan er. Starfsfólk og velunnarar skipa einnig kóra heimilanna og aðstandendur eru hjartanlega velkomnir. Eftir tónleikana var kórunum boðið í kaffisamsæti. Kristín Waage er kórstjóri Grundar og Markar kóranna.

Aðstandendur

Mikilvægi aðstandenda fyrir heimilismenn er ótvírætt. Það tekur tíma að fóta sig í nýju hlutverki eftir komuna á hjúkrunarheimilið. Hlutverk þeirra breytist oft talsvert og umönnunarbyrði er að stórum hluta létt af aðstandendum sem oft á tíðum hefur verið mjög þung í langan tíma. Þó starfsfólkið sinni nú athöfnum daglegs lífs að miklu leyti þá er samt mikilvægt fyrir aðstandendur að halda áfram að sinna félagslegum þörfum heimilismanns að einhvejru leyti, en hafa meira val um að sinna skemmtilegri hlutum en beinni umönnun. Oft eru aðstandendur óöuggir um hvað má og hvað má ekki á hjúkrunarheimilinu. Það er gott að hafa hugfast að við sem að vinnum á heimilunum erum að vinna á heimilum fólksins, en það býr ekki á okkar vinnustað. Leitast er við að hafa andrúmsloftið heimilislegt. Ein algeng spurning við komuna á hjúkrunarheimili er hvenær er heimsóknartími? Svar við þvi er einfaldlega þegar og eins lengi eða stutt og heimilismaðurinn sjálfur kýs að hafa heimsókn. Setjist niður með heimilismanni og allt í lagi að það sé á matmálstímum. Það veitir tilbreytingu, spjallið yfir matnum, aðstoðið ef þarf og þið viljið. Það er upplagt að fara í gönguferðir, innandyra og utan, kíkja í bíltúr, á kaffihús, í heimsóknir út í bæ og hvað sem ykkur dettur í hug. (muna bara að láta starfsfólk vita af því). Hugmyndirnar eru margskonar, hægt er að lesa upp, spila tónlist eða á hljóðfæri, spila, spjalla, skoða myndir, baka vöffur, dansa og svo framvegis. Það er tilvalið að að koma einn daginn með ísveislu til að njóta saman, eða uppáhalds mat fólksins ykkar og hægt að biðja starfsfólk um skálar og diska eftir þörfum og svo hjálpast að við frágang, heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk. Um að gera að bjóða öðrum heimilismönnum líka, það er bara kærkomin tilbreyting fyrir alla. Það er gefandi fyrir heimilisfólk að fá að bjóða öðrum með sér. Við sem að vinnum á hjúkrunarheimilunum reynum eftir fremsta megni að koma með tilbreytingu í daglegt líf heimilisfólksins og margir starfsmenn hafa frumkvæði að allskonar skemmtilegum „uppákomum“. Sjúkra- og iðjuþjálfun býður líka upp á allskyns þjónustu og virkni, sem sumir vilja taka þátt í en aðrir alls ekki. Okkar hlutverk er að hvetja til slíkrar þáttöku en við neyðum aldrei neinn sem að gefur skýrt til kynna að hann vilji ekki. Heimilin standa ykkur opin. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarssoon forstjóri Grundarheimilanna Ps: Svæði sem að gaman er að ganga um og heimsækja á okkar heimilum: Grund: á 3. hæð í miðjunni er falleg stofa og þar er gaman að setjast niður og spjalla. Þar er einnig barnahorn og oft mikið næði. Í starfsmannaborðsal á 1. hæð er velkomið að setjast. Þar er kaffivél sem að stendur öllum til boða að nýta. Hægt er að ganga innandyra yfir tengiganginn á 2. hæð, eða ganga utandyra í porti milli húsa. Ég veit að Grund virkar flókin fyrir þá sem að ganga ekki mikið um þar og erfitt að rata. Endilega spyrjið til vegar, að villast smá getur líka bara verið smá spennandi og hluti af ævintýraferð innanhúss Ás: Á hjúkrunarheimilinu í kjallaranum er setustofa við hliðina á lyftunni. Einnig er bjart og notalegt að setjast í sófa sem að eru inni í kapellunni, en hún á að standa opin. Kapellann er innst á ganginum í kjallaranum. Í Ási er setustofa og salur í Ásbúð og á Ásbyrgissvæðinu setustofa og salur í Ásbyrgi. Það er gott og gaman að skipta um umhverfi og fyrir þá sem að eru í útideildum að kíkja í kjallarann á hjúkruanrheimilinu eða á milli staða. Mörk: Aðstaðan á herbergjum heimilisfólks er auðvitað ein sú besa sem að við höfum og þörf á að útbúa rými til heimsókna annarsstaðar því minni en á hinum heimilunum. Það er þó mikilvægt fyrir heimilismenn að breyta til og fara út af herberginu. Í Mörk erum við kapellu með sófa innaf stóra matsalnum á 1.hæð. Við höfum svo auðvitað frábært kaffihús sem að er um að gera að kíkja á.

Púttvöllurinn opinn

Þar kom að því. Það er búið að opna púttvöllinn okkar hér í Mörk. Í tilefni af því hittist pútthópurinn áðan og tók saman fyrsta pútt ársins. Allir íbúar eru velkomnir alla daga en venjan er að hittast á þriðjudögum kl.14:30 við garðskálann og taka saman pútt, að því loknu fer hópurinn í Kaffi Mörk og fær sér veitingar.