Vellíðan - Virðing - Vinátta

Hvað er að frétta

Fréttir og tilkynningar

31.10.2025  |  Grund

Málað á grasker

Það er frábært að sjá hvernig starfsfólkið í vinnustofunni hugsar út fyrir rammann hér á Grund. Það er næstum ógjörningur fyrir heimilisfólk að skera út grasker, erfiðisvinna fyrir lúnar hendur sem oft eru þjakaðar af gigt og kvillum. Starfsfólkið leggur sig í líma við að finna út hvernig hægt er að virkja heimilisfólkið með og skapa notalegt og skemmtilegt andrúmsloft. Þetta árið datt því í hug að það væri bara heillaráð að mála graskerin, spjalla og fræðast um hrekkjavöku og lita grasker ef fólk vildi. Gefandi stund, gleði og kátína
30.10.2025  |  Grund

Grund fagnar 103 ára afmæli

Heimilið fagnaði 103 ára afmæli sínu í gær, 29. október og því er fagnað þessa dagana hér á Grund. Samhliða afmælinu hefur svo áratugum skiptir verið haldið svokallað foreldrakaffi.🎂 Hefðin á á bakvið það á sér langa sögu. Grund var stofnuð með almennum samskotum sumarið 1922 og í byrjun september það ár var Grund keypt sem var steinhús við Kaplaskjólsveg. Húsið varð fljótt alltof lítið því þörfin á húsnæði fyrir aldraða var brýn. Framtíðarsýn stjórnar Grundar var að ráðast í byggingu stærra heimilis. Sveinn Jónsson kaupmaður í Reykjavík, oft nefndur Sveinn í Völundi, kom á fund stjórnar Grundar þann 10. desember árið 1924 og tilkynnti að hann og systkini hans vildu gefa þúsund krónur í húsbyggingarsjóð heimilisins til minningar um foreldra þeirra Jón Helgason og Guðrúnu Sveinsdóttur frá Steinum undir Eyjafjöllum. Eina skilyrðið sem fylgdi gjöfinni var að jafnan skyldi á heimilinu haldið upp á brúðkaupsdag þeirra hjóna 26. október ár hvert. Þaðan kemur semsagt nafnið foreldrakaffi og þessi skemmtilega hefð sem við enn í dag höldum á lofti. Hér á árum áður komu systkinin í heimsókn þennan dag meðan þeim entist líf og heilsa og gáfu þá um leið heimilinu meira en afmælisveislan kostaði hverju sinni. Afmælisgestir gæddu sér á heitu súkkulaði og ljúffengar veitingar voru á borð bornar nú sem endranær. Að þessu sinni söng Grundarkórinn í hátíðasalnum og Sefán Helgi Stefánsson óperusöngvari söng nokkur lög. Karl Óttar Einarsson forstjóri flutti stutta tölu og Guðrún B Gísladóttir, fyrrverandi forstjóri, rakti sögu heimilisins og sagði frá tilurð hefðarinnar með foreldrakaffið.
28.10.2025  |  Grund

Dansað með Grundarbandinu

Það er alltaf gaman að dansa og ekki bara gott að hreyfa sig heldur lyftir tónlistin og dansinn andanum líka. Grundarbandið okkar mætti nýlega og lék fyrir dansi við mikinn fögnuð okkar hér á Grund. Það er alltaf tilhlökkunarefni þegar þetta vaska lið harmonikkuleikara kemur til okkar og spilar fyrir dansi. Takk kærlega fyrir okkur nú sem endranær kæru félagar.
21.10.2025  |  Ás

Tónlistarbingó vinsælt

Það er alltaf gaman þegar tónlistarbingó er á dagskrá hér hjá okkur í Ási. Eins og ávallt var vel mætt og andrúmsloftið létt og skemmtilegt.
21.10.2025  |  Mörkin

Bleikir tónar á konukvöldi

Það voru prúðbúnar konur sem mættu á Kaffi Mörk í síðustu viku þegar blásið var til konukvölds hjá Íbúðum 60+. Bleik lýsing, bleikt í glasi, ljúfir tónar og ostabakkar biðu þeirra á kaffihúsinu og dagskrá kvöldsins var skemmtileg. Það var Fanney Björg sem sá um að kynna dagskrána og hún hófst með tískusýningu. Fyrirsæturnar Lilja, Súsanna, Fanney Lára og Weronika gengu um og sýndu danskan tískufatnað sem hentar skvísum á öllum aldri. Stöllurnar Solla, Elva og Erla frá hársnyrtistofunni og fótaaðgerðar- og snyrtistofunni kynntu vörur sínar og svo var happdrætti þar sem vinningarnir voru gjafabréf frá Heilsulind Markar, hársnyrtistofunni sem og frá fótaaðgerðar og snyrtistofu Markarinnar. Að sjálfsögðu voru þær mættar líka Laila frá Heilsulindinni og Alda frá Íbúðum 60+ sem gengu úr skugga um að allt væri eins og það á að vera á svona dásamlegu kvöldi. Kjóll úr kaffipokum Rúsínan í pysluendanum var tískusýningin hennar Unu Stefaníu sem er íbúi hjá Íbúðum 60+. Stefanía rak saumastofu í mörg ár, gerði gjarnan við leðurflíkur. Hún lærði hattasaum af vinkonu sinni og saumaði í mörg ár búninga t.d. fyrir dimmisjónir og síðar vann hún einnig á saumastofu sjónvarpsins. Tískusýningin hennar Stefaníu var með öðruvísi sniði því hún sýndi okkur hvernig hægt er að nýta plastpoka, kaffipoka og jafnvel gardínur í fatasaum. Þegar peningar voru af skornum skammti dóu konur ekki ráðalausar og þá var hægt að nýta það sem hendi var næst. Stórkostlegar flíkur úr þessum efnum sem vöktu mikla athygli á konukvöldinu.
17.10.2025  |  Grund

Kváðu rímur í morgunstund

Það er alltaf tilhlökkunarefni að sjá hvaða gestir heiðra morgunstundina hér á Grund með nærveru sinni. Í þessari viku voru það hjónin Óttar Guðmundsson læknir og Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona. Þau kváðu rímur eftir Sigurð Breiðfjörð við fögnuð heimilisfólks. 🥰 Vikulega koma gestir í morgunstundina, sem er á miðvikudagsmorgnum, og gefa vinnu sína. Það er ómetanlegt og dýrmætt að sjá og finna hvað fólk er tilbúið að koma í sjálfboðavinnu og veita tilbreytingu í líf heimilisfólksins með þessum hætti. 😍 Kærar þakkir fyrir frábæra heimsókn Óttar og Jóhanna.
Grundarheimilin

Kynningarmyndband