Hvað er að frétta

Fréttir og tilkynningar

13.02.2025  |  Grund

Undirbúa Lífshlaupið í næstu viku

Í næstu viku er Lífshlaupsvika á Grund og þessa dagana er verið að undirbúa hana. Heimiliskonur á Litlu og Minni Grund máluðu plastflöskur í gríð og erg nú í vikunni. Þær verða svo fylltar af hráum hrísgrjónum, þeim stillt upp og farið í keilu með þær. Endurnýta og hreyfa sig.
12.02.2025  |  Mörk

Danskir nemendur í Mörk

Grundarheimilin eru í samvinnu við nokkra skóla í Danmörku sem bjóða upp á nám í félags- og heilbrigðisþjálfun. Dönsku nemendurnir hafa komið í starfsþjálfunina í Mörk. Þeir eru á Erasmus styrk sem skólarnir sækja um. Nemendur sjá um að finna sér húsnæði í Reykjavík og eru oftast í fjórar vikur í Mörk. Þeir taka þátt í öllum daglegum umönnunarstörfum og fá leiðsögn og vinna þeirra er þá hluti af verklegri þjálfun hjá þeim. Undanfarin misseri hafa verið að koma nemendur alla vetrarmánuðina hingað í Mörk eða um átta til tíu nemendur á ári. Í dag kveðja þrjár danskar stúlkur okkur, þær Nina Sørensen Sabrina Navne Ølund og Emma Myrén en þær eru nemendur við Social og sundhedsskolen á Fjóni. Við hittum Nínu og Sabrínu stuttlega í gær. Þær eru afskaplega ánægðar með dvölina og hefðu alveg getað hugsað sér að vinna hjá okkur lengur. Glöggt er gests augað svo við spurðum hvernig þeim líkaði að vinna hér. "Það er svo notalegt og afslappað andrúmsloftið hér í Mörk. Það eru viðbrigði frá því sem við eigum að venjast þar sem streita einkennir meira vinnuumhverfið. Í Danmörku þarf að koma öllum fram í morgunmat á réttum tíma og vinna verkin hratt en hér ræður heimilisfólkið meira ferðinni sjálft og fer á fætur þegar því hentar", segir Nína. Sabrína tekur undir og segir að morgunvaktir séu líka miklu betur mannaðar hér, þrír til fjórir sem sinna hverri heimiliseiningu á meðan það eru tveir í Danmörku sem sinna sama fjölda. "Heima eru starfsmenn yfirleitt í einkennisbúningi og má ekki slettast á þá bleyta þá þarf að skipta um föt og það verður allt stofnanalegra þannig. Það er þetta heimilislega andrúmsloft sem er svo notalegt og gefandi", segir Sabrina. Að lokum benda þær á að heimilisfólk sé yfirleitt miklu hressara hér en í Danmörku. "Það eru margir heimilismenn hérna sem geta tekið þátt í ýmsu og gert hluti á meðan fólk sem fer á hjúkrunarheimili í Danmörku er orðið mjög veikt þegar það kemur á hjúkrunarheimili."
12.02.2025  |  Mörk

Lionsklúbburinn Njörður færði Mörk bekk að gjöf

Lionsklúbburinn Njörður gaf nýlega hjúkrunarheimilinu Mörk breiðan meðferðarbekk í sjúkraþjálfun. Bekkurinn er sérstaklega breiður og bólstraður til að gera hann mýkri svo hann henti vel fyrir þá sem þurfa á mýktinni að halda við æfingar. Félagar í Lions afhentu bekkinn formlega og myndirnar voru teknar við það tækifæri.
06.02.2025  |  Grund

Dásamleg heimsókn á Litlu Grund

Það var notalegt að sjá börnin koma stormandi inn í hlýjuna á Litlu Grund en nemendur úr 3. bekk Landakotsskóla komu í heimsókn í vikunni og spjölluðu við og sungu fyrir heimilisfólkið. Svona ljúfar heimsóknir eru gefandi fyrir alla því heimilisfólkið nýtur þess að fá að spjalla og hlusta á ungviðið og það kynnist heimilinu og þeim sem þar búa. Grund er áberandi bygging í vesturbænum ogþað er frábært fyrir börnin að vita hvað er í þessu stóra húsi sem þau kannski fara framhjá daglega. Þetta eru notalegar samverustundir.
03.02.2025  |  Mörk, Mörkin

Fatamarkaður í Mörk

Síðastliðinn fimmtudag vorum við með fatamarkað í anddyri hjúkrunarheimilisins. Þar var fatnaður og annar varningur úr verslunum Grundarheimilanna til sölu á góðu verði. Margir gerðu sér ferð til að skoða, versla og spjalla og úr varð skemmtilegur dagur.
23.01.2025  |  Ás

Pongó fylgist með æfingunum

Það var notalegt í sjúkraþjálfuninni okkar í vikunni. Heimiliskonurnar Rúna og Eyrún kom saman einu sinni í viku og gera styrktaræfingar. Að þessu sinni voru þær að gera æfingar með uppáhaldsdótinu hans Pongó, stórum appelsínugulum boltum. Hann fylgdist að sjálfsögðu spenntur með og passaði að allt færi vel fram.
Grundarheimilin

Kynningarmyndband