12.02.2025 | Mörk
Grundarheimilin eru í samvinnu við nokkra skóla í Danmörku sem bjóða upp á nám í félags- og heilbrigðisþjálfun. Dönsku nemendurnir hafa komið í starfsþjálfunina í Mörk. Þeir eru á Erasmus styrk sem skólarnir sækja um. Nemendur sjá um að finna sér húsnæði í Reykjavík og eru oftast í fjórar vikur í Mörk. Þeir taka þátt í öllum daglegum umönnunarstörfum og fá leiðsögn og vinna þeirra er þá hluti af verklegri þjálfun hjá þeim.
Undanfarin misseri hafa verið að koma nemendur alla vetrarmánuðina hingað í Mörk eða um átta til tíu nemendur á ári.
Í dag kveðja þrjár danskar stúlkur okkur, þær Nina Sørensen
Sabrina Navne Ølund og Emma Myrén en þær eru nemendur við Social og sundhedsskolen á Fjóni. Við hittum Nínu og Sabrínu stuttlega í gær. Þær eru afskaplega ánægðar með dvölina og hefðu alveg getað hugsað sér að vinna hjá okkur lengur. Glöggt er gests augað svo við spurðum hvernig þeim líkaði að vinna hér.
"Það er svo notalegt og afslappað andrúmsloftið hér í Mörk. Það eru viðbrigði frá því sem við eigum að venjast þar sem streita einkennir meira vinnuumhverfið. Í Danmörku þarf að koma öllum fram í morgunmat á réttum tíma og vinna verkin hratt en hér ræður heimilisfólkið meira ferðinni sjálft og fer á fætur þegar því hentar", segir Nína. Sabrína tekur undir og segir að morgunvaktir séu líka miklu betur mannaðar hér, þrír til fjórir sem sinna hverri heimiliseiningu á meðan það eru tveir í Danmörku sem sinna sama fjölda. "Heima eru starfsmenn yfirleitt í einkennisbúningi og má ekki slettast á þá bleyta þá þarf að skipta um föt og það verður allt stofnanalegra þannig. Það er þetta heimilislega andrúmsloft sem er svo notalegt og gefandi", segir Sabrina. Að lokum benda þær á að heimilisfólk sé yfirleitt miklu hressara hér en í Danmörku. "Það eru margir heimilismenn hérna sem geta tekið þátt í ýmsu og gert hluti á meðan fólk sem fer á hjúkrunarheimili í Danmörku er orðið mjög veikt þegar það kemur á hjúkrunarheimili."