Fréttir

Púttvöllurinn opinn

Þar kom að því. Það er búið að opna púttvöllinn okkar hér í Mörk. Í tilefni af því hittist pútthópurinn áðan og tók saman fyrsta pútt ársins. Allir íbúar eru velkomnir alla daga en venjan er að hittast á þriðjudögum kl.14:30 við garðskálann og taka saman pútt, að því loknu fer hópurinn í Kaffi Mörk og fær sér veitingar.

Sumarblómin komin

Sumarblómin komu til okkar í Mörkina í dag beint frá gróðurhúsunum okkar í Ási. Stúlkurnar úr ræstingunni tóku það að sér að planta þeim í beðin okkar. Alltaf jafn gaman að sjá beðin svona blómleg. Nú má sumarið koma.

Vinir í sviðaveislu

Það er viss kjarni í Íbúðum 60+ sem kemur alltaf síðdegis í heilsulindina og fær sér hressingu um leið og spjallað er um heimsmálin og lífið og tilveruna. Sumir skreppa áður í sund, skella sér í gufu eða líkamsrækt en aðrir koma bara til að setjast niður og spjalla við vini. Þessi hópur hittist í síðustu viku og borðaði saman svið og rófustöppu. "Dásamlegur félagsskapur og ekki skemmdu þessar frábæru veitingar fyrir", segir Laila Margrét Arnþórsdóttir sem er hjartað í heilsulind Markar en hún rekur heilsulindina ásamt Daða Hreinssyni

Breytingar við stjórnvöl Grundarheimilanna

Stjórn Grundar hefur gengið frá ráðningu Karls Óttars Einarssonar í starf forstjóra Grundarheimilanna. Um leið var Gísli Páll Pálsson, fráfarandi forstjóri, ráðinn í hlutastarf sem stjórnarformaður Grundar frá sama tíma. Breytingarnar taka gildi þann 1. maí næstkomandi.

Jóga fyrir íbúa 60+

Það var róleg og notaleg jóga stund í Kaffi Mörk í morgun. Jóga kennarinn Shinde kemur alla föstudaga kl.10 og býður íbúum íbúða 60+ upp á jóga. Í tímunum eru teygjuæfingar sem bæta líkamsgetu og auka vöðvastyrk. Einnig eru öndunaræfingar og æfingar fyrir andlegan styrk. Tímarnir henta fólki á öllum aldri og á öllum getustigum.

Qigong - íbúðir 60+

Boðið er upp á Qigong æfingar fyrir íbúa í íbúðum 60+ í Mörk tvisvar í viku. Æfingarnar eru í kaffihúsinu Kaffi Mörk á mánudögum og miðvikudögum kl.10. Qigong eru áraþúsunda gamlar kínverskar lífsorkuæfingar og hafa tímarnir notið mikilla vinsældar hjá okkur í Mörk. Fjórir félagar í Aflinum, félagi Qigong iðkenda, skiptast á að leiða hópinn. Æfingakerfi Aflsins er kennt við Gunnar heitinn Eyjólfsson leikara og nefnist Gunnarsæfingarnar.

Bóndadagur íbúa 60+

Bóndadeginum var fagnað hér í Mörkinni síðasta föstudag en hann markar upphaf Þorra. Það var boðið í Þorraveislu að hætti hússins með tilheyrandi súrmeti í matsalnum og Kaffi Mörk. Margir mættu í lopapeysum og þjóðlegum flíkum í tilefni dagsins.

Gleðileg jól

Gleðileg jól

Jólakveðja

Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum ánægjulegar stundir á árinu sem er að líða. Hér eru myndir sem voru teknar á jólaballinu þann 15. desember. Skjóða kom í heimsókn og sagði jólasögu. Jólasveinabræður hennar komu líka og glöddu börnin með smá glaðning. Það var svo dansað í kringum jólatré og sungið dátt.