Smurbrauð getur verið lítið listaverk

 Hún mætir hálftíu á morgnana á Kaffi Mörk og fer að undirbúa daginn. Lára Magnea Jónsdóttir er fjölhæf kona og á milli þess sem hún sést skjótast fram og til baka á kaffihúsinu vinnur hún við sitthvað annað. Oftast er það menningararfurinn sem á hug hennar og þá helst íslenskur útsaumur og gömul íslensk mynstur. Guðbjörg R. Guðmundsdóttir fékk sér cappucino með Láru og forvitnaðist um þessa orkumiklu konu sem tekur á móti gestum kaffihússins í Mörk.
„Ég byrjaði að vinna hérna í apríl. Mig langaði að breyta til og hafði rýmri tíma en áður. Þetta lá einhvern veginn beinast við því öll fjölskyldan hefur meira og minna unnið í þessum geira. Ég er frá Akureyri og pabbi minn var kokkur á sjó, bróðir minn líka og hinn bróðir minn hefur í áratugi rekið mötuneyti. Frænka mín er snilldar bakari og ég gæti áfram talið. Ég hef reglulega unnið sjálf með mat, rétt fólkinu mínu hjálparhönd, eldað fyrir ferðamenn á fjöllum og svo smurði ég smurbrauð með skólanum í gamla daga. Ég hef alltaf haft áhuga á matargerð og lít svo á að það sé nátengt að vinna með mat og vinna við listsköpun. Hver brauðsneið getur verið lítið listaverk útaf fyrir sig og margir sem fara í nám í matreiðslu eða bakstri eru listhneigðir.“
Smyr allt brauðið sjálf
Lára segir að það sé mikið að gera á Kaffi Mörk og nú sé hún komin með starfsmann með sér af og til. „Ég man þegar ég byrjaði þá féllust mér næstum hendur. Ég var ein og mjög mikið að gera. Það lá við að ég hætti bara við. En núna er þetta allt að koma og mér finnst mjög gaman í vinnunni. Hingað koma margir daglega og mér finnst svo dásamlegt að kaffihúsið er nokkurskonar samfélagsmiðstöð íbúanna.“
Það tala margir um að veitingarnar hafi tekið breytingum, sérstaklega smurða brauðið og kökurnar.
“Takk fyrir það. Ég legg metnað í að hafa fjölbreytt bakkelsi og við Benni, sem er hinn frábæri bakari Grundarheimilanna í Ási, höfum í samvinnu verið að finna út hvað er vinsælt. Allt brauðmeti smyr ég svo sjálf, smurbrauðið og eins heilhveitihornin og annað sem ég býð uppá. Mér finnst skipta máli að hafa sem mest unnið frá grunni og vil gjarnan gera sem mest sjálf.“
Reyktur silungur og lax vinsælast
Hvað er vinsælasta smurbrauðið? „Reyktur lax og silungur er mjög vinsælt álegg. Margir vilja líka roastbeef. Annars er sennilega flatbrauð með hangikjöti vinsælast svona heilt yfir. Svo hef ég verið að bjóða upp á smurð heilhveitihorn líka. Íbúar kaupa stundum smurbrauð eða heilhveitihornin til að hafa sem kvöldmat og þá hef ég lánað þeim diska undir brauðið. Getur þú ekki komið því að í þessu viðtali að mig fari að vanta þessa lánsdiska“, segir hún og hlær þessum dillandi hlátri sem einkennir þessa lífsglöðu konu. „Ég smyr stundum aðeins of mikið og þá fer afgangurinn samdægurs upp á eitt þeirra ellefu heimila sem eru hér á hjúkrunarheimilinu. Þann daginn er boðið upp á smurbrauð með kvöldmatnum.“
Byrjaði fimm ára að sauma
Lára Magnea hefur alltaf verið fyrir handverk. „Ég var líklega fimm eða sex ára þegar ég byrjaði að sauma fötin á barbídúkkurnar mínar. Ég hef bara alltaf verið með eitthvað milli handanna“. Mesta unun hefur hún haft af því að vinna með menningararfinn. „Ég er textílhönnuður og vinn með gömul mynstur, litset þau á ný og endurhanna. Eitt af nýjustu verkefnunum gerði ég í samvinnu við Borgarsögusafnið og Heimilisiðnaðarfélag Íslands í tengslum við sýninguna um Karólínu vefara sem er í Árbæjarsafni. Karólína rak um áratugaskeið vefstofu í vesturbænum og kenndi hannyrðir og bjó yfir mikilli þekkingu á hannyrðum. Ég var fengin til að taka mynstrin hennar og endurhannaði í takt við tímann og hannaði krosssaumspakkningar undir heitinu Krosssaumur Karólínu. Þessar útsaumspakkningar hafa notið mikilla vinsælda og verið fáanlegar í verslun HFÍ og hjá mér.“ Lára Magnea rekur litla vefverslun sem heitir Saumakassinn og er með vefsíðuna www.saumakassinn.is. Þar er meðal annars hægt að skoða verkin hennar og kaupa útsaumspakkningar.
Núvitund og krosssaumur
Hversvegna hefur þú einbeitt þér að útsaumi frekar en öðru handverki?
„Held það sé núvitundin í bland við sköpun. Ég gleymi mér alveg þegar ég er að sauma og næ að einbeita mér að útsaumi. Hvað snertir listsköpunina þá getur hún komið fram t.d. þegar ég er að smyrja smurbrauð eða vinna eitthvað annað með höndunum. Líklega er það þessi ró sem færist yfir þegar ég er að sauma út sem dregur mig alltaf að útsaumi.“Lára Magnea hefur verið formaður Heimilisiðnaðarfélagsins og einnig kennt þar. Hún hefur setið í ritnefnd tímarits félagsins, Hugur og hönd, tekið þátt í Hönnunarmars, Ráðhússmarkaðnum, kennt í smiðjum og á námskeiðum á ýmsum söfnum. Þessi upptalning er bara sýnishorn af fjölbreyttum verkefnum sem hún hefur komið nálægt þegar handverk er annars vegar.
Brennur fyrir réttindum fatlaðs fólks
Það sem hefur þó átt hug hennar lengi og tekið mikið af tíma hennar eru málefni fólks með Downs heilkenni. „Ég á fjögur börn og það þriðja í röðinni, Glódís Erla, er með Downs-heilkenni. Það hefur mótað líf mitt í rúm tuttugu ár. Það er mikil vinna að vera foreldri barns með fötlun og ekki auðvelt að stunda venjulega vinnu með uppeldinu. En nú er hún flutt í sjálfstæða búsetu, í fallega íbúð í nýlegum íbúðakjarna og lifir sínu sjálfstæða lífi. Þess vegna hef ég rýmri tíma og valdi að taka að mér þetta frábæra kaffihús hér í Mörkinni. Glódís er með aðstoð við allar athafnir daglegs lífs og ég get sinnt mínu áhyggjulaus.“
Kannski flyt ég í sveitina
Oft situr Lára Magnea í sveitakyrrð og saumar. „Við erum með skika fyrir austan fjall og fengum fyrir nokkrum árum gamlar vinnubúðaeiningar frá Kárahnjúkum sem við settum þar niður. Maðurinn minn, Ólafur Guðmundsson, nýtur þess að smíða og þessar vinnubúðaeiningar líta ekki út sem slíkar lengur. Við erum komin með okkar sælureit í Grafningnum og þessa dagana er hann að smíða verkfærageymslu fyrir austan. Ætli við flytjum ekki þangað einn daginn.