Að hafa hlutverk

Það skiptir okkur öll máli að hafa hlutverk í lífinu og á ólíkum æviskeiðum þá breytast hlutverkin okkar. Við höfum hlutverk í vinnu, í heimilishaldi, í uppeldi o.m.fl. Með hlutverki sem okkur er treyst fyrir og við finnum að skiptir máli höfum við tilgang.

Það eru mörg skref og flókin sem að þarf að taka þegar að við skipum um gír í lífinu og þurfum að finna okkur nýtt hlutverk eða verkefni þegar einu hlutverki eða verkefni lýkur. Dæmi um þetta er þegar að barnauppeldi lýkur og börnin fara að heiman, þegar við hættum á vinnumarkaði o.s.frv. Að fara á hjúkrunarheimili getur reynst mörgum erfitt sem að áður höfðu margvísleg hlutverk í sínu heimilislífi. Við sem störfum á þessum heimilum verðum að gæta þess að fólkið okkar upplifi sig ekki aðeins sem þiggjendur þjónustu heldur hafi ákveðin hlutverk.

Það er okkar að koma auga á möguleika til þess að skapa þessi hlutverk. Það vill enginn upplifa að hann sé óþarfur eða byrði. Dæmi um hlutverk sem við getum fundið á heimilunum okkar eru að leggja á borð, að taka af borðum, setja í eða taka úr uppþvotta/þvottavél, að brjóta saman þvott/tuskur, að brjóta saman servíettur, vökva blóm, raða einhverjum vörum í hillur og ótal margt fleira. Fólkið okkar er með mismunandi færni og hefur mismikla getu til að sinna þessum verkum komin á nýtt heimili, en útkoman og hvernig það er gert ætti að vera aukaatriði. Tuskurnar mega vera allskonar brotnar saman, servíetturnar mega vera allskonar, við erum heimili og allt má vera allskonar. Hjálpumst að við að finna verkefni við hæfi, þau þurfa ekki að vera stór eða flókin en geta skipt þann sem að fær verkefnið gríðarlega miklu máli.

 

 

Kveðja og góða helgi

Karl Óttar Einarsson

forstjóri Grundarheimilanna