Réttardagur í Mörk

Í síðustu viku var réttardagur í Mörkinni. Íbúar komu saman í hádeginu þar sem íslensku sauðkindinni var hampað, snæddu kjöt og kjötsúpu og fengu sér snafs með.
Ekki spillti fyrir að í heimsókn komu Eyjabræður og sungu. Þetta eru félagarnir Þorbjörn Geir Ólafsson og Daði Heiðar Sigurþórsson en þeir eru báðir ættaðir frá Flatey á Breiðafirði og þræl vanir bæði söng og spila á gítar.
 
Guðni Ágústsson gladdi íbúa með skemmtilegri frásögn um ágæti íslensku sauðkindarinnar sem hefur haldið okkur Íslendingum á lífi mann fram af manni. Hann komst skemmtilega að orði eins og jafnan og er vel að sér þegar kemur að réttum. Honum var tíðrætt um Skeiðarréttir og sagði frá því þegar Höskuldur bruggari færði þeim réttarvinið Höskuld en svo hét landinn og bætti við að eitt haustð hefðu komið 18 börn undir, slíkt var fjörið.
 
Hann var sannfærandi þegar hann sagðist hafa verið besti landbúnaðarráðherra á Íslandi og í Evrópu og þó víðar væri leitað og fór svo með vísu sem Jóhannes á Gunnarsstöðum kvað:
 
Allt sem vinum okkar brást
Allt sem mátti klaga.
Allt sem Drottni yfirsást
Ætlar Guðni að laga.