Myndlistarsýning heimiliskonu á Grund

Í dag klukkann 13.30 verður opnuð myndlistarsýning á aðalgangi Grundar 1. hæð. Það er listakonan og heimiliskonan Sheena Gunnarsson sem á verkin á sýningunni.
Haustið 1965 kom Sheena Gunnarsson til Íslands til að kenna ensku við málaskólann Mími en Sheena er ættuð frá Hjaltlandseyjum. Hún ætlaði að búa einn vetur á Íslandi en hreifst af landinu, strax á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur segir hún og áttaði sig á að líklega ætti hún erfitt með að yfirgefa landið aftur. Sheena var sannspá.
Hún kynntist eiginmanni sínum Friðriki Gunnarssyni og þau ólu upp börnin sín fjögur í húsi sem Sheena hannaði og þau byggðu við Sólbraut 18 á Seltjarnarnesi. Friðrik lést 2019.
Sheena nam hönnun og myndlist við Listaháskólann í Edinborg, einnig glerblástur og glerskurð og lauk kennsluréttindum frá Edinborgarháskóla.
Sheena hefur hannað bókakápur, málað postulín, unnið með leir, vefnað, silki og hún kenndi lengi í samfélagshúsinu við Aflagranda.
Í janúar 2015 greindist hún með parkinson sem hefur breytt listsköpun hennar en ekki dregið úr henni. Myndirnar sem verða til sýnis á tengiganginum á fyrstu hæð Grundar eru unnar undanfarin þrú ár með aðstoð frá starfsfólki iðjuþjálfunar.
Verið hjartanlega velkomin með ykkar aðstandendum á sýninguna sem er opin alla daga næstu vikurnar.