Grund á 95 ára vígsluafmæli

Grund við Hringbraut var vígð við hátíðlega athöfn 28. september árið 1930. Heimilið á því 95 ára vígsluafmæli á sunnudaginn og við munum að sjálfsögðu fagna og draga fána að húni.
 
Umskiptin voru mikil fyrir heimilismenn því þeir höfðu fram að þessu búið þröngt í litlu húsi við Sauðagerðistún sem er í nágrenni við Kaplaskjólsveg í vesturbænum. Húsið þótti afar reisulegt og flott. Haft er eftir einum heimilismanni að húsið væri reisulegt og fjarska fínt en gallin væri að það væri nær ómögulegt að rata út. Gömul kona gekk um húsið og skoðaði en spurði svo: Hvar eigumvið að vera? Hún varð orðlaus þegar henni var sagt að hún mætti velja sér herbergi þar sem hún stóð.
 
Á þessu tíma voru 125 herbergi í húsinu, þrjú sjúkraherbergi, 7 baðherbergi, 7 salerni og 5 kaffieldhús. Þvottahus og eldhús búin allra bestu nútímatækjum. Húsið kostaði ásamt öllu innanstokks 650 þúsund krónur. Fyrstu heimilismennirnir voru 56.
 
Í áranna rás hefur verið byggt við aðalbygginguna og á bakvið Grund reis Litla Grund og Minni Grund. Þegar neyðin var hvað mest í þjóðfélaginu og vantaði úrræði fyrir aldraða bjuggu á heimilinu 380 heimilismenn. Það var samt áður en Litla Grund kom til. Í dag búa á Grund um 160 heimilismenn og hefur því fækkað á heimilinu um 200 manns.
Markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að nútímavæða heimilið og breyta húsnæðinu þannig að boðið sé upp á einbýli með baðherbergi fyrir alla.
Skemmtilegasta og nýlegasta viðbótin hér á Grund er fallega kaffihúsið okkar í suðurgarði heimilisins, Kaffi Grund.