Viltu útbúa lífssögu fyrir mömmu eða ömmu?

Í dag var aðstandendum Grundarheimilanna boðið að koma í Mörk og kynna sér hvernig  hægt er að gera lífssögu fyrir heimilismann. Og afhverju er gott að vera með lífssögu fólks?  Oftar en ekki er heimilisfólk  komið með minnissjúkdóm þegar það flytur á hjúkrunarheimili  og þá er gott að hafa lífssögu en hún nýtist mjög vel til að starfsfólkið geti kynnst heimilismanni og fundið vettvang til að hefja spjall við hann.  Og jafnvel þó viðkomandi sé ekki farinn að gleyma hlutum þá er þetta engu að síður frábært tækifæri fyrir starfsfólk  sem ætlar að hefja spjall við heimilismann. Segjum sem svo að heimilismaður hafi alltaf átt hund  og það sé mynd af honum með hundinn sinn í lífssögunni og starfsmaðurinn eigi jafnvel hund.  Þar er komið sameiginlegt áhugamál og hver veit nema starfsmaðurinn komi með hundinn sinn í vinnuna til að heilsa upp á heimilismanninn.  Annað dæmi er að heimilismaður gæti hafa búið á Flateyri og starfsmaðurinn sé einmitt ættaður þaðan. Þar er kominn frábær grunnur að gefandi samræðum.

Við höfum verið að hampa gerð veggspjalda þar sem stiklað er á stóru úr lífi heimilismanns.  Veggspjaldið er hengt upp á vegg í herbergi heimilismanns og auðvelt fyrir starfsfólkið að lesa og kynna sér það sem þar stendur. Á veggspjaldinu eru t.d. myndir frá mismunandi skeiðum úr lífi fólksins og kannski þess nánustu. Þar getur komið fram hvaðan heimilismaður er, við hvað hann starfaði, hverjir voru fjölskylduhagir, áhugamál eins og garðyrkja, sjósund, golf eða ferðalög,  myndir af gæludýrum ef það á við, vináttusamböndum  og svo framvegis.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hversu jákvætt það er fyrir starfsfólkið að sjá lífssöguna og geta kynnt sér hana þegar heimilismaður flytur á hjúkrunarheimili. 

Lífssöguna er hægt að gera með ýmsu móti, búa til á netinu bók um heimilismann með ljósmyndum og texta og láta hana liggja frammi í herbergi hjá viðkomandi eða hreinlega gera veggspjald þar sem stiklað er á stóru um líf viðkomandi. Kosturinn við veggspjaldið er að það hangir uppi og er auðvelt fyrir alla að sjá.  Það er nóg að taka ljósrit af ljósmyndum eða nota ljósmyndir og líma á veggspjald og skrifa svo texta við myndirnar sem útskýra.

Við hvetjum aðstandendur til að gera lífssögu fyrir sinn heimilismann.