Jóla og áramótaundirbúningur 2023

Nú er allt á fullu í undirbúningi hjá okkur á Grund fyrir jól og áramót. Að ýmsu er að hyggja við undirbúninginn svo vel takist til á stóru heimili. Það hefur verið venjan að senda aðstandendum heimilisfólksins okkar nokkrar línur fyrir jólin til að hjálpast að við undirbúninginn og upplýsa.
Jólafötin
Við viljum biðja ykkur sérstaklega að fara með heimilisfólkinu yfir fatnað fyrir hátíðarnar, ganga úr skugga um að hann sé hreinn og passi, hengja hann upp á herðatré og merkja t.d. aðfangadagskvöld, gamlárskvöld o.s.fr. Starfsfólk á hverju heimili á tilbúna miða sem hægt er að hengja á herðatréin. Passið sérstaklega að merkja allan nýjan fatnað með merkitúss þar sem að það getur liðið einhver tími þar til að nýr fatnaður verður merktur.
Gestir í mat á aðfangadagskvöld/gamlárskvöld
Okkur þykir vænt um að geta boðið aðstandendum að taka þátt í hátíðarhöldum hér á Grund. Vegna húsrýmis þurfum við að setja mörk við einn gest hjá hverjum heimilismanni. Gestum er vinsamlegast bent á að starfsfólk er fyrst og fremst heimilisfólki til aðstoðar og því verða gestir að taka þátt í borðhaldi og frágangi í samstarfi við starfsfólk. Þeir aðstandendur sem hafa hug á að borða á Grund með heimilisfólki aðfangadagskvöld og/eða gamlárskvöld eru beðnir að láta okkur vita með fyrirvara. Borðhald hefst á hverju heimili klukkan 18:00.
Fer heimilisfólk úr húsi yfir jólin?
Algengt er að heimilismenn fari heim til aðstandenda sinna um jól og áramót. Nauðsynlegt er fyrir starfsfólk að vita hverjir verða ekki heima með nokkrum fyrirvara til að flýta fyrir undirbúningi (lyf, fatnað o.s.frv.). Aðstandendur eru beðnir um að aðstoða sitt fólk ef það fer út úr húsi. Þá biðjum við ykkur þegar heim er aftur komið að aðstoða ykkar fólk ef starfsfólk er upptekið.
Hjólastólabílar
Þeir heimilismenn sem þurfa á þjónustu hjólastólabíla að halda er bent á að miklar annir eru á leigubílastöðvunum yfir hátíðisdagana. Nauðsynlegt er því að panta bílana með góðum fyrirvara. Aðstandendur verða að sækja sitt fólk upp á heimili og aðstoða í leigubílana.
Hugmyndir af jólagjöfum
Við bendum á að fólk þarf heldur meira af fötum þar sem þvottþjónustan gengur hægar fyrir sig hér en í heimahúsum. Hlýir sokkar, batterískerti, mjúk og falleg teppi til að breiða yfir sig, þyngingarteppi, inniskór, húðvörur t.d rakakrem og kroppakrem eru dæmi um tilvaldar jólagjafir. Áskriftir af t.d. storytell, myndaalbúm, grjónahitapokar eru einnig dæmi um góðar og vinsælar gjafir. Eitthvað gott fyrir sælkerana og jafnvel púrtvín er tilvalin gjöf. Við getum alltaf geymt og aðstoðað með að gefa staup. Bara að muna að merkja vel allar jólagjafir.
Verslunin á Grund er með úrval af jólagjöfum.