Fjárlögin 2022

Fjárlögin fyrir næsta ár komu heldur seint fram þetta árið þar sem ný ríkisstjórn var mynduð á löngum tíma, vegna talningaklúðurs, nóg um það.  En þegar við stjórnendur hjúkrunarheimila sáum fjárlagafrumvarpið fór um okkur nokkur hrollur.  Þar vantaði að okkar mati að festa í sessi/daggjaldagrunni hjúkrunarheimilanna þann auka milljarð sem var bætt inn í daggjöldin í lok síðasta sumars.  Sú viðbót var nauðsynleg og kærkomin fyrir heimili sem mörg hver voru við hungurmörk.  Þegar milljarðurinn bættist við, fylgdi því árétting af hálfu fjárveitingavaldsins þess efnis að ekki væri um að ræða viðbót sem mætti búast við að bættist við núverandi daggjaldagrunn þessa árs. 

Sem betur fer sáu ráðherrar, þingmenn og aðrir þeir sem komu að umræðu og gerð breytingartillagna fjárlaganna ljósið og skiptu um skoðun.  Með þessu sýnist mér að rekstrargrunnur hjúkrunarheimilanna sé á verulega traustari grunni en verið hefur í mörg undanfarin ár.  Þar að auki var bætt inn í daggjaldagrunninn 1.200 milljónum króna vegna verkefnisins „Bættur vinntími vaktavinnufólks“, eitthvað sem vantaði inn í daggjaldagrunninn í fjárlagafrumvarpinu.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu með Bjarka Þorsteinsson formann og Sigurjón Norberg Kjærnested framkvæmdastjóra í fararbroddi hafa að mínu mati unnið feikn gott og mikilvægt starf fyrir aðildarfélögin og augljóst að þar fara afar hæfir menn.  Með ítarlegri umsögn um fjárlagafrumvarpið auk fimm viðbótarerindum henni tengdri til fjárlaganefndar og heilbrigðisráðuneytis tókst að gera þær mjög svo mikilvægu endurbætur á fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár.  Hluti umsagnar og erinda skilaði góðum árangri fyrir önnur aðildarfélög SFV en þau sem eru í hjúkrunarheimilisrekstri og er það vel.

Mér sýnist einnig að viðhorf nýs heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, sé á jákvæðum og góðum nótum og fyrir það ber að þakka.  Og eflaust hefur fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, og fjárlaganefnd einnig komið að þessum góðu breytingum og fyrir það er einnig þakkað.

Þess ber þó að geta að ekki er búið að semja við hjúkrunarheimilin um rekstur næsta árs og þá væntanlega næstu ára.  Núverandi samningur rennur út 1. mars nk. og hafa því samninganefnd SFV og Sambands sveitarfélaga tvo mánuði til að ljúka gerð nýs samnings.  Ég bind miklar vonir við að sá samningur verði okkur sem rekum hjúkrunarheimili landsins hagstæður og að áralangur niðurskurður fjárframlaga til okkar verði á enda.

 

Kveðja og gleðilegt nýtt ár,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna