Bólusetning starfsmanna

Þessa dagana er að hefjast bólusetning allra starfsmanna Grundarheimilanna.  Ánægjulegt í alla staði og ber að þakka fyrir af heilum hug.  Bóluefnið mun hafa fulla virkni þegar seinni sprautan er gefin í maí mánuði en virknin er eftir fyrstu sprautu engu að síður um það bil 70%.  Þessi bólusetningarhrina innifelur í sér eins og áður segir, alla starfsmenn heimilanna þriggja sem eru fæddir frá 1957 – 2002.  Eldri en 65 ára fá annað bóluefni síðar og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins áttaði sig ekki á því að yngri en fæddir 2002 væru í vinnu hjá okkur, og þeir fá því heldur ekki boð um bólusetningu.  Það verður vonandi fljótlega.

Við stjórnendur Grundarheimilanna mælum eindregið með því að allir fari í bólusetningu og hjálpist þannig að við útrýmingu veirunnar í okkar góða samfélagi.  Ef einhver getur ekki eða kýs að fara ekki í bólusetningu (enginn skyldaður í það) þá er viðkomandi beðinn um að nota andlitsgrímu þangað til að faraldurinn verður yfirstaðinn, sem verður vonandi í byrjun næsta vetrar, ef til vill síðar.

Ef einhver starfsmaður efast um að hann megi, þá oftast vegna einhverra heilsutengdra mála, fara í bólusetningu þá er eðlilegast að ræða það við starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þau vita allt um málið.  Það gæti misskilist ef ég, allsendis ómenntaður maðurinn í heilbrigðisfræðum, færi að úttala mig um það allt saman.

Ítreka þakkir mínar til þeirra sem stjórna þessum málaflokki og aðgerðum þeirra við útvegun á bóluefni sem mér sýnist geta leitt til þess að sumarið verði okkur barasta nokkuð hagstætt.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna