Bjartara framundan

Fréttir undanfarna daga vekja bjartsýni í brjósti.  Svo virðist sem að bóluefni við Covid – 19 sé innan seilingar.  Þegar það verður endanlega staðfest og hafist verður handa við bólusetningu þeirra sem eru í áhættuhópum, má segja að lokaorustan við þessi leiðindaveiru sé loks hafin.  Og allar lýkur á því að okkur takist að sigra hana. 

En við verðum að fara varlega í all nokkurn tíma enn.  Við megum alls ekki gleyma okkur í gleðinni og fara að haga okkur á óábyrgan hátt.  Enn sem komið er hefur okkur á Grundarheimilunum tekist nokkuð vel til.  Nokkrir starfsmenn hafa sýkst og einn hemilismaður hefur fengið veiruna.  Enginn hefur veikst alvarlega eða látið lífið og fyrir það er ég afar þakklátur.  Og stoltur, því það er ekki sjálfgefið að svona vel takist til, það sanna dæmin í okkar samfélagi.  En stolt er ekki eina tilfinningin.  Óendanlegt þakklæti til allra starfsmanna Grundarheimilanna þriggja sem hafa svo sannarlega lagt á sig mikla vinnu, fórnfýsi og haldið sig í talsverðri einangrun til að geta sinnt okkar yndislegu heimilismönnum. 

Þetta ár hefur verið heldur erfitt okkur öllum.  Máltæki segir eitthvað á þessa leið: „Það sem drepur þig ekki, herðir þig“  Held að það eigi við í þessu samhengi.  Vissulega hafa all nokkrir látið lífið og samúð mín er hjá aðstandendum þeirra.  Einnig finn ég til með þeim sem hafa veikst alvarlega og eru jafnvel ennþá að jafna sig, jafna sig kannski aldrei.  En við hin sem höfum sloppið og/eða jafnað okkur að fullu, við höfum sennilega og vonandi einnig lært talsvert af þessu öllu saman.  Að lífið er ekki sjálfgefið og að heilsan er það dýrmætasta sem við eigum.  Það er ekki sjálfgefið að geta hitt hvern sem er hvenær sem er og gera alltaf allt sem mann langar til að gera.

Ég hlakka mest til að geta knúsað fólk.  Heilsað því með handabandi og tekið utan um það.  Ef til vill breytist þessi knúsmenning okkar eitthvað eftir þennan faraldur, minnkar ef til vill en leggst vonandi ekki af.  En líklega verður allt slíkt að bíða næsta sumars, jafnvel haustsins, kemur í ljós.  Þangað til skulum við fara varlega og passa okkur í daglegu lífi þannig að líkur á að smitast og smita aðra séu í algjöru lágmarki.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna