Að gefa bók

Eins og hefur áður komið fram á þessum vettvangi gáfum við út 100 ára sögu Grundar í tilefni af aldarafmæli heimilisins nú í október síðastliðnum.  Framúrskarandi vel rituð af þeim feðginum Guðmundi Óskari Ólafssyni (fyrstu 75 árin) og svo dóttur hans Guðbjörgu Guðmundsdóttur (síðustu 25 árin). 

Bókin var prentuð í nokkur þúsund eintökum og strax ákveðið að gefa öllum heimilis- og starfsmönnum Grundarheimilanna eintak.  Starfsmenn hafa sótt sér eintak á undanförnum dögum og stendur hún þeim endurgjaldslaus til boða í verslunum Grundarheimilanna til áramóta.  Ég aftur á móti ákvað að færa öllum heimilismönnunum Grundarheimilanna þriggja bókina ásamt gamadags borðdagatali með myndum úr starfsemi Grundar á fyrri hluta og upp úr miðri síðustu öld.  Sú gjafaferð hefur staðið yfir undanfarna daga og hefur gefið mér mikið.  Ég er ekki spjalltýpan, að rölta um heimilin þrjú, setjast niður með heimilisfólki og taka það tali.  Ég þarf að hafa „tilgang“ með spjallinu, ef þannig má að orði komast.  Kannski finnst lesendum þetta skrýtið, en svona er ég bara.  Mamma var, og er reyndar enn, þessi góða manneskja sem röltir um Grund og spjallar og tekur kaffibolla með heimilis- og starfsfólki.  Sem er bara fínt.

Ég var því mjög ánægður með að hafa fengið tilefni til spjalls við heimilisfólkið við það að gefa þeim sögu Grundar.  Margir voru afar þakklátir og skildu hreinlega ekki af hverju afmælisbarnið sjálft væri að gefa afmælisgjöf en þáðu bókina með miklum þökkum.  Ýmislegt kom til tals.  Meðal annars þökkuðu mjög margir fyrir aðbúnaðinn, starfsfólkið og öryggið sem þau upplifðu við það að búa á Grundarheimilunum.  Það var notalegt að finna hversu mörgum líður mjög vel hjá okkur.  Við erum sennilega að gera eitthvað rétt.  Nokkrir spurðu hvort þau mættu taka í hendina á mér og þakka fyrir.  Upplifði mig eitt augnablik eins og „fræga rokkstjörnu“, sem ég er alls ekki en fannst þetta nokkuð skondið.  Ein heimiliskona bað mig um áritun, sem mér þótti mjög vænt um.

Ef aðstandendur eða einhverjir aðrir vilja eintak af bókinni þá er það sjálfsagt mál.  Datt í hug að leggja til, að þeir sem myndu þiggja eintak, aðrir en heimilis- og starfsmenn Grundarheimilanna, myndu leggja eins og þrjú þúsund krónur inn á eitthvað það líknarfélag sem þeim hugnast.  Eitthvað sem afi minn Gísli Sigurbjörnsson hefði líklega gert við tímamót sem þessi og ég er sennilega að stela hugmyndinni frá honum.  Þannig að ef einhver vill eintak, sendið línu á mig eða grund@grund.is, bókin verður send til ykkar og þið ráðið þá hvert þrjúþúsundkallinn fer.

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna