Að bjarga gefur mjög mikið

Ég er formaður Hjálparsveitar skáta Hveragerði.  Og hef sinnt björgunarstörfum undanfarin sjö ár.  Það er feikn gefandi að fá að bjarga, hjálpa til.  En fátt er þó meira gefandi en að bjarga mannslífi.  Var einn nokkurra björgunarmanna síðastliðinn laugardag að grafa ungan dreng úr snjóflóði í Hamrinum í Hveragerði.  Með samhentu átaki okkar björgunarmanna í Hveragerði og félaga okkar í Björgunarfélagi Árborgar þá tókst að bjarga drengnum úr flóðinu, tiltölulega lítið sködduðum.  Stóri bróðir hans, sem var að leika sér með honum í snjóhengjunum í Hamrinum, brást hárrétt við með því að fjarlægja snjó frá andliti bróðursins og hringja strax í einn einn tvo, 112.  Þannig var það auðvitað í raun hann sem bjargaði lífi hans í byrjun, við tókum bara við björguninni þegar við mættum á staðinn.

Björgunarsveitin í Hveragerði er tiltölulega lítil sveit, enda rétt rúmlega 3.000 manna bæjarfélag á bak við okkur.  En þeir góðu félagar sem eru í sveitinni eru mjög samhentir og duglegir við að æfa og mæta í þau útköll sem okkur berast í símana okkar með smáskilaboðum frá Neyðarlínu.  Þar að auki stendur bæjarstjórn og allir bæjarbúar þétt að baki sveitinni.  Bæjarstjórnin með hagstæðum og góðum samningi með föstum fjárframlögum til okkar og allur almenningur styður okkur með ráðum og dáð, og peningum, með kaupum á Neyðarkalli, flugeldum og hverju öðru því sem við gerum til að afla okkur fjár.  Fyrir það erum við mjög þakklát, þannig getum við rekið sveitina og búið hana bestu tækjum og búnaði sem völ er á.

Þessi vetur hefur verið heldur annasamur.  Mörgum sinnum höfum við lokað Hellisheiðinni og farið í slatta af óveðursútköllum.  Síðastliðinn mánudag lenti ég svo í því að selflytja farþega úr rútu sem fór út af í Skíðaskálabrekkunni í snarvitlausu veðri.  Farþegarnir voru erlendir ferðamenn og margir hverjir frekar skelkaðir þegar ég kom um borð í rútuna.  En með brosi og yfirvegun voru þeir allir fluttir með björgunarsveitarbílum í Hellisheiðarvirkjun þar sem þeir dvöldu í góðu yfirlæti þangað til að þeir voru sóttir seinna um kvöldið þegar veðrinu slotaði.

Þakklæti og gleði foreldra og aðstandenda litla drengsins var ósvikið og innilegt eftir björgunina.  Einnig skein ósvikið og mikið þakklæti úr augum ferðamannanna í rútunni og bílstjóra hennar.  Að finna slíkt gefur lífinu, já björgunarsveitarlífinu, mikið gildi.

Förum varlega í vonda veðrinu í dag, og ef fleiri slíkir dagar koma seinna í vetur.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna