99 ára afmæli Grundar í dag

Í dag, 29. október fagnar Grund 99 ára afmæli.  Það var fyrir 99 árum að húsið við Grund var vígt en það stóð þar sem Kaplaskjólsvegur er í dag.  Húsið var með átta svefnstofur fyrir 23 heimilismenn, tvö herbergi fyrir ráðskonu og starfsstúlkur, eina setustofu, búr og eldhús.  Nýtt hús var svo byggt við Hringbrautina og var tekið í notkun árið 1930.

Margt, nær allt, hefur breyst á þessari tæpu öld sem Grund hefur sinnt öldruðum hér á landi.  Húsakostur, rúm, hjálpartæki, lyf og hvað annað sem er notað við daglegan rekstur hjúkrunarheimilis.  En eitt breytist ekki, það er hjartalag starfsmannanna.  Við á Grund höfum alla tíð verið afskaplega heppin með allt það starfsfólk sem hefur sinnt þeim þúsundum heimilismanna sem hafa dvalið hjá okkur þessa tæpu öld.  Og heppnin varðandi starfsfólkið hefur fylgt okkur á hin Grundarheimilin tvö, Ás frá 1952 og Mörk frá 2010. 

Öll þessi 99 ár hefur áhersla verið lögð á framúrskarandi þjónustu við heimilisfólkið ásamt því að starfsemin hefur verið byggð upp og efld.  Eins og áður segir þá tók Ás til starfa í júlí 1952 og Mörk í ágúst 2010.  Í dag eru heimilismennirnir á Grundarheimilunum þremur tæplega 400.  Þar að auki eigum við og leigjum út rúmlega 150 íbúðir til 60 ára og eldri í Mörkinni við Suðurlandsbraut.  Þá rekum við okkar eigið þvottahús í Hveragerði.  Samtals vinna um það bil 700 manns hjá fyrirtækjunum sex og heildarvelta þeirra í fyrra nam rétt tæpum sex milljörðum króna.

Umfangsmikill rekstur í alla staði sem nær vonandi að vaxa og dafna enn frekar á komandi árum.  En meginmarkmið Grundarheimilanna er ávallt og verður að veita heimilisfólki framúrskarandi þjónustu og gera allt hvað hægt er til að þeir geti notið lífsins eins vel og kostur er, oft við misjafna heilsu.

Það verður gaman að fá að halda upp á aldarafmælið á næsta ári.  Unnið er að ritun 100 ára sögu Grundar og gerð heimildamyndar um heimilið er í farvatninu.  Fleira skemmtilegt verður gert á afmælisárinu, kemur í ljós eftir því sem að líður á næsta ár.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna