Óþarfa áhyggjur af hagnaði

Á dögunum auglýstu Sjúkratryggingar Íslands eftir áhugasömum aðilum til að reka fimm hjúkrunarheimili.  Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri, Uppsali á Fáskrúðsfirði, Hulduhlíð á Eskifirði og Hraunbúðir í Vestmannaeyjum.  Þessi heimili eiga það sameiginlegt að sveitarstjórnirnar sem hafa staðið að rekstri þeirra hafa gefist upp.  Gefist upp á endalausum taprekstri undanfarinna ára og hafa ákveðið að hætta að greiða með rekstri þeirra.  Enda er rekstur hjúkrunarheimila á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum, ekki sveitarfélaga.

Nú er það svo að rekstur nær allra hjúkrunarheimila landsins hefur verið erfiður undanfarin ár og ekki bætti covid 19 úr skák.  Aukinn kostnaður vegna faraldursins og minnkaðar tekjur sumra hjúkrunarheimila hefur gert vonda stöðu enn verri.  Staða sveitarfélagaheimilanna, ef þannig má að orði komast, er enn verri en þeirra sem eru rekin sem sjálfseignarstofnanir, þar sem launakostnaður þeirra er hærri að meðaltali en sjálfseignarstofnananna.

Í auglýsingunni segir: „Æskilegt er að rekstraraðilar séu reknir á grundvelli fyrirkomulags um sjálfseignarstofnanir eða þar sem hagnaður er endurfjárfestur í þágu starfseminnar.“  Göfugt og skynsamlegt markmið.  En ekki líklegt að á þetta reyni.  Samanlagður hallarekstur þessara heimila undanfarin þrjú ár nemur rúmlega 1.450 milljónum króna.  Tæpum einum og hálfum milljarði.  Það er talsvert í að þau komi til með að skila hagnaði, held barasta alveg sama hver rekstraraðilinn verður.  Stjórnendur SÍ ættu því að geta sofið rólegir þó að það komi að þessu einhver aðili sem uppfyllir ekki framangreint markmið.  Áhyggjur af því að væntur hagnaður fari út úr rekstrinum eru að mínu mati óþarfar.

Áhugavert verður að fylgjast með rekstri Skjólgarðs, hjúkrunarheimilinu á Höfn í Hornafirði en sveitarfélagið hefur ákveðið að skila rekstri þess einnig til ríkisins.  Forstjóri SÍ tilkynnti á dögunum að búið væri að semja um rekstur þess við ótilgreindan aðila, sem er reyndar ekki einkaaðili, heldur ríkisheimili sem SÍ fékk til verkefnisins.  Ég hef áður bent á að Skjólgarður greiðir húsaleigu í beinhörðum peningum til Ríkiseigna vegna þess húsnæðis sem hjúkrunarheimilið er rekið í.  Engar tekjur koma frá SÍ til greiðslna þeirra tæpu 20 milljóna sem renna þannig út úr rekstri Skjólgarðs til Ríkiseigna.  Geri frekar ráð fyrir því að nýr rekstraraðili komi til  með að þurfa að greiða þessar húsaleigugreiðslur áfram til Ríkiseigna.  Og fái þá til þess auknar tekjur frá SÍ til þeirra greiðslna, nú eða samið verði um að hætta þeim greiðslum.  Að halda áfram óbreyttum húsaleigugreiðslum án aukinna tekna er líklega ávísun á áframhaldandi taprekstur.  Hvaða leið sem verður farin í þessum húsaleigumálum Skjólgarðs, þá mun ég fylgjast með af áhuga og sýnist að það stefni í einhvers konar nýjungar og stefnubreytingar hjá ríkinu í þeim efnum.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna