Enn af snjallsímum

Á fjölmennum stefnumótunarfundi Grundarheimilanna sem haldinn var fyrr í þessum mánuði kom skýrt fram, bæði hjá heimilismönnum, aðstandendum og all mörgum starfsmönnum að snjallsímanotkun starfsmanna á vinnutíma væri of mikil.  Alltof mikil á köflum.  Og að við yrðum að bregðast við þessu með einhverjum skýrum hætti.

Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör.  Margar hugmyndir komu fram.  Banna alveg notkun þessara tækja, takmarka notkun þeirra með einhverjum hætti eða reyna  að stýra notkun þeirra þannig að vel sé.  Allt tiltölulega erfið markmið að mínu mati og eins og er þá sé ég enga hagstæða lausn.

Í málum sem þessum er oft gott að leita eftir sjónarmiðum annarra.  Hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar og nota það sem gengur vel.  Með pistli þessum óska ég eftir hugmyndum frá ykkur hvernig skynsamlegast væri að leysa þessa ofnotkun á snjallsímum í vinnutíma.  Veit vel að það er mitt hlutverk og annarra góðra starfsmanna Grundarheimilanna að finna lausnir sem þessar en ég spyr engu að síður.  Ef maður spyr ekki, þá fær maður ekki svör og ef til vill leynist góð lausn einhvers úti hjá ykkur.  Efast reyndar ekki um það, þetta vandamál er víðast hvar annars staðar.

Verstu hugmyndirnar/tillögurnar eru þær sem koma aldrei fram.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna