Fréttir

Vöfflukaffið byrjað aftur hjá 60+

Þá er vöfflukaffið byrjað aftur eftir sumarfrí. Á mánudögum kl. 14:30 er vöfflukaffi í Kaffi Mörk fyrir íbúa í íbúðum 60+, en þá stendur íbúum til boða að kaupa vöfflu og kaffi. Notaleg samvera og er öllum íbúum 60+ velkomið að koma.

Boccia í góða veðrinu

Það er gott að komast út undir bert loft þegar vel viðrar. Aðstandendur eru duglegir að bjóða fólkinu sínu í göngutúra og alltaf hægt, nú þegar haustar, að fá lánuð teppi í hjólastól ef heimilismaður þarf á að halda. Það er stutt í ísbúðina á Hagamel, á kaffihús, á svæðið vð Landakot og sumir arka niður að tjörn eða jafnvel niður að sjó. En stundum er líka bara gott að viðra sig í portinu hér á Grund og það gerðu heimilismenn um daginn þegar bocciatíminn var fluttur þangað.

Fögnuðu hálfrar aldar vígsluafmæli á Grund

Félag fyrrum þjónandi presta sá um messuhald á Grund síðastliðinn sunnudag. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikaði og sr. Jón Þorsteinsson og sr. Kristján Valur Ingólfsson þjónuðu fyrir altari í tilefni af 50 ára vígsluafmæli þeirra. Félagar úr Grundarkórnum leiddu söng undir stjórn Kristínar Waage organista.

Verslunin flutt að nýja kaffihúsinu

Verslun Grundar hefur nú verið flutt að nýja kaffihúsinu og er hún opin alla virka daga frá klukkan 12.30-15.30 eða þar til kaffihúsið verður opnað. Kaffihúsið er í raun tilbúið en þessar vikurnar standa yfir leyfisveitingar og lokaúttektir og er beðið eftir að öll tilskilin leyfi séu komin. Vonandi á næstu vikum. Það ríkir mikil eftirvænting meðal allra hér í húsinu og aðstandendur hafa einnig sýnt kaffihúsinu áhuga svo það verður gaman þegar loksins verður hægt að opna dyrnar fyrir kaffihúsagestum. Á meðfylgjandi mynd er fyrsti viðskiptavinurinn, starfsmaðurinn Rúnar, að kaupa sér orkudrykk hjá henni Rut í nýja verslunarhúsnæðinu.

Blómstrandi dagar

Það lögðu allir sitt af mörkum dagana fyrir Blómstrandi daga hér í Ási og föndruðu og skreyttu. Útkoman var skemmtileg og litrík. Kærar þakkir til allra sem lögðu leið sína í Ás á Blómstrandi dögum.

Fiskidagurinn litli 2024

Það var mikil gleði og mikið stuð síðasta þriðjudag en þá héldum við upp á Fiskidaginn litla. Er þetta í sjöunda sinn sem við í Mörk 60+ höldum upp á daginn og þökkum við forsvarsfólki Fiskidagsins mikla á Dalvík fyrir stuðninginn og áhugann. Boðið var upp á fiskrétt, fiskisúpu, fiskiklatta og meðlæti. Gísli Páll stjórnarformaður Grundarheimilanna setti hátíðina og Friðrik Ómar söngvari tók nokkur vel valin lög. Viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna.